Viljayfirlýsing um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands (LHÍ) í Tollhúsinu við Tryggvagötu var undirrituð í dag.
Stofnkostnaður við framkvæmdir á Tollhúsinu er um 10,8 milljarðar til viðbótar við áætlað virði hússins, sem er um 2 milljarðar króna.
Það kemur fram í nýju minnisblaði sem unnið var af vinnuhópi um framtíðarhúsnæði LHÍ skipaður af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra með aðild forsætisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Listaháskólans.
Í tilkynningu frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að tillaga hópsins metur kostnað flutninganna um 451 milljónir árlega sem er nálægt núverandi leigukostnaði skólans.
451 milljón árlega
,,Það er mikilvægt að byggja vel undir listnám á Íslandi enda eru skapandi greinar ein af grunnstoðum atvinnulífs og nýsköpunar. Í fyrsta sinn í sögu Listaháskóla Íslands liggur fyrir samþykki ríkisstjórnar Íslands um fjármögnun á framtíðarhúsnæði skólans. Það er risastór áfangi – sá stærsti í sögu skólans – og við fögnum honum svo innilega hér í dag,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í tilkynningu.
Lengi hefur verið umræða um að sameina alla starfsemi Listaháskólans í einu húsnæði en eins og stendur fer starfsemin fram í fjórum mismunandi byggingum, sem bráðlega verða fimm talsins er kvikmyndalistadeild opnar í Borgartúni í haust.
Af þessum stöðum er húsnæðið við Laugarnesveg 91 það eina sem tryggt er skólanum til lengri tíma. LHÍ stefnir að því að geta hafið kennslu í Tollhúsinu á næstu þremur til fimm árum.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að miðað sé við að ríkissjóður fjármagni framkvæmdina en muni á móti fá þann ágóða sem hlýst af því að þróa húsnæðið við Laugarnesveg til að standa undir fjárfestingunni.
Viljayfirlýsinguna undirrituðu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, forsætisráðherra, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og borgarstjóri Reykjavíkur.