Gert er ráð fyrir að öldungadeild Bandaríkjaþings komi saman síðar í dag til þess að ræða efnahagsviðbrögð við COVID-19 faraldrinum þar í landi en aukin öryggisgæsla er nú við þinghúsið vegna samsæriskenningar QAnon sem kveður á um að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, muni snúa aftur.
Alríkislögregla Bandaríkjanna greindi frá því fyrr í vikunni að lögreglan við þinghúsið væri meðvituð um mögulega ógn frá öfgamönnum og að umræður um mögulega árás 4. mars væru að færast í aukana. Fulltrúadeild þingsins ákvað í ljósi þessa að flýta málum sínum svo þingmenn þyrftu ekki að vera viðstaddir í dag.
Reyna að koma COVID-19 pakka í gegnum þingið
Demókratar innan öldungadeildarinnar hafa lýst því yfir að þeir vilji koma efnahagspakkanum í gegnum þingið eins fljótt og auðið er, helst fyrir helgi. Um er að ræða 1,9 billjóna dala efnahagspakka og hafa Repúblikanar lýst því yfir að þeir vilji tefja afgreiðslu pakkans.
Að því er kemur fram í New York Times er óljóst hvort samsæriskenningin um endurkomu Trumps komi til með að hafa áhrif á fund öldungadeildarinnar en fundurinn var enn á dagskrá fyrr í dag.
Þingmenn eru þó sagðir taka ógninni alvarlega, sérstaklega eftir óeirðirnar við þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn. Stöðug öryggisgæsla hefur verið við þinghúsið frá óeirðunum 6. janúar en nýjar girðingar með gaddavír hafa meðal annars verið settar upp í kringum þinghúsið.
Líkt og áður segir er 4. mars dagurinn sem samsæriskenningarsmiðir telja að Trump muni snúa aftur fyrir sitt annað kjörtímabil og hann láti handtaka Demókrata í massavís. Upprunalega héldu QAnon fylgjendur því fram að sá dagur yrði 20. janúar, þegar Joe Biden tók við embætti, en eftir að það gekk ekki eftir var dagsetningin færð til 4. mars.
The House left town early, the Senate continued to debate a $1.9 trillion bill for coronavirus relief and U.S. Capitol Police braced for a potential security threat Thursday as a possible follow-up to the Jan. 6 insurrection. https://t.co/mCG9w6SuY3 pic.twitter.com/eRnCS3RVuB
— USA TODAY Politics (@usatodayDC) March 4, 2021