Gert er ráð fyrir að öldunga­deild Banda­ríkja­þings komi saman síðar í dag til þess að ræða efna­hags­við­brögð við CO­VID-19 far­aldrinum þar í landi en aukin öryggis­gæsla er nú við þing­húsið vegna sam­særis­kenningar QA­non sem kveður á um að Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, muni snúa aftur.

Al­ríkis­lög­regla Banda­ríkjanna greindi frá því fyrr í vikunni að lög­reglan við þing­húsið væri með­vituð um mögu­lega ógn frá öfga­mönnum og að um­ræður um mögu­lega árás 4. mars væru að færast í aukana. Full­trúa­deild þingsins á­kvað í ljósi þessa að flýta málum sínum svo þing­menn þyrftu ekki að vera við­staddir í dag.

Reyna að koma COVID-19 pakka í gegnum þingið

Demó­kratar innan öldunga­deildarinnar hafa lýst því yfir að þeir vilji koma efna­hags­pakkanum í gegnum þingið eins fljótt og auðið er, helst fyrir helgi. Um er að ræða 1,9 billjóna dala efna­hags­pakka og hafa Repúblikanar lýst því yfir að þeir vilji tefja af­greiðslu pakkans.

Að því er kemur fram í New York Times er ó­ljóst hvort sam­særis­kenningin um endur­komu Trumps komi til með að hafa á­hrif á fund öldunga­deildarinnar en fundurinn var enn á dag­skrá fyrr í dag.

Þing­menn eru þó sagðir taka ógninni al­var­lega, sér­stak­lega eftir ó­eirðirnar við þing­húsið þann 6. janúar síðast­liðinn. Stöðug öryggis­gæsla hefur verið við þing­húsið frá ó­eirðunum 6. janúar en nýjar girðingar með gadda­vír hafa meðal annars verið settar upp í kringum þing­húsið.

Líkt og áður segir er 4. mars dagurinn sem sam­særis­kenningar­smiðir telja að Trump muni snúa aftur fyrir sitt annað kjör­tíma­bil og hann láti hand­taka Demó­krata í massa­vís. Upp­runa­lega héldu QA­non fylgj­endur því fram að sá dagur yrði 20. janúar, þegar Joe Biden tók við em­bætti, en eftir að það gekk ekki eftir var dag­setningin færð til 4. mars.