Stefán Vagn Stefáns­son, for­seti sveitar­stjórnar Skaga­fjarðar, mun leiða lista Fram­sóknar í Norð­vestur­kjör­dæmi í haust. Talningu póst­at­kvæða lauk í dag, að því er fram kemur í til­kynningu.

Listann leiddi áður Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra. Hann tilkynnti í janúar að hann hyggðist bjóða sig fram í Reykjavík þess í stað. Tíu aðilar gáfu kost á sér í póst­kosningunni. Kosið var um fimm efstu sæti listans fyrir komandi al­þingis­kosningar. Á kjör­skrá voru 1995 manns. Kosninga­þátt­taka var 58 prósent.

Þingkona féll niður í þriðja sæti

Stefán Vagn Stefáns­son hlaut 580 at­kvæði í fyrsta sæti. Lilja Rann­veig Sigur­geirs­dóttir, formaður landsbamdands ungra Framsóknarmanna hlaut 439 at­kvæði í fyrsta og annað sæti. Þingkonan Halla Sig­ný Kristjáns­dóttir, sem var í öðru sæti á listanum fyrir síðustu kosningar hlaut 418 at­kvæði í fyrsta til þriðja sæti. Frið­rik Már Sigurðs­son hlaut 526 at­kvæði í fyrsta til fjórða sæti. Iða Marsibil Jóns­dóttir hlaut 563 at­kvæði í fyrsta til fimmta sæti.