Stefán Skarphéðinsson, fyrrverandi sýslumaður, lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi í gær 8. nóvember.
Morgunblaðið greinir frá.
Stefán var sjötíu og sjö ára að aldri en hann fæddist í Reykjavík 1. apríl 1945. Foreldrar hans voru þau Erla Kristín Egilson hattameistari, fædd á Patreksfirði 1924, dáin 2010 og Skarphéðinn Kr. Loftsson lögregluvarðstjóri, fæddur í Arnarbæli á Fellsströnd 1922, dáinn 2001.
Systir Stefáns var Guðrún Lofthildur, f. 1949, d. 1982. Systir Stefáns samfeðra er Katrín Dóra Valdimarsdóttir, f. 1957.
Eftirlifandi eiginkona Stefáns er Ingibjörg Ingimarsdóttir, fædd 1949. Þau eiga fjögur börn; Þórunni Erlu, f. 1971, Kristínu Maríu, f. 1974, Ásgerði Ingu, f. 1979 og Stefán Einar, f. 1983. Sonur Stefáns úr fyrra sambandi er Arnþór Haraldur, f. 1966.
Stefán ólst upp í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1967 og embættisprófi í lögfræði 1975. Árið 1980 varð Stefán héraðsdómslögmaður og 1994 var hann skipaður sýslumaður í Borgarnesi og gegndi embættinu til ársloka 2014 þegar hann lét af störfum vegna aldurs. Stefán bjó í Borgarnesi til dauðadags.