Stefán Karl Stefánsson leikari er látinn eftir áralanga og stranga baráttu við illvígt krabbamein. Stefán Karl var 43 ára gamall þegar hann lést. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, leikkonu og ritstjóra, og fjögur börn; Elínu Þóru, Júlíu, Þorstein og stjúpdótturina Bríeti Ólínu.

Steinunn Ólína greinir frá þessu á Facebook. „Yndið mitt, Stefán Karl Stefánsson, er látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein. Stefán var fæddur 10. júlí 1975 og varð því 43 ára gamall. Að ósk hins látna verður engin jarðarför og jarðneskum leifum dreift í kyrrþey á úthafi fjær. Fjölskyldan þakkar auðsýndan stuðning og hlýhug á undangengnum árum og sendir hinum fjölmörgu vinum og aðdáendum Stefáns Karls sínar innilegustu samúðarkveðjur.“

Stefán Karl útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands vorið 1999 og var fastráðinn við Þjóðleikhúsið það sama ár. Þar lék hann meðal annars titilhlutverkin í Cyrano frá Bergerac og Glanna glæp í Latabæ.

Hann lék einnig í Gullna hliðinu, Draumi á Jónsmessunótt, Kirsuberjagarðinum, Syngjandi í rigningunni og fleiri verkum. Þá gerðu hann og Hilmir Snær Guðnason stormandi lukku, þrisvar með löngu millibili, í Með fulla vasa af grjóti árin 2000, 2012 og síðan á tíu sýningum 2017 þegar Stefán Karl fór á kostum í fjölda hlutverka, nýstiginn upp eftir erfiða skurðaðgerð.

Þekktastur er Stefán Karl þó fyrir túlkun sína á Glanna glæp en með hressilegri túlkun sinni á þeim erkifjanda Íþróttaálfsins gerði hann persónuna að sinni strax í upphafi en auk þess að leika Glanna á sviði fór hann mikinn í hlutverkinu í hinum vinsælu Lazy Town sjónvarpsþáttum á árabilinu 2001-2014 en þættirnir voru sýndir víða um heim við miklar vinsældir.

Þá aflaði Stefán Karl sér mikilla vinsælda og fjölda aðdáenda á þeim níu árum sem hann lék Trölla sem stal jólunum í leiksýningunni How the Grinch Stole Christmas í um tveimur tugum borga í Bandaríkjunum og Kanada. Trölla, hið sívinsæla hugarfóstur Dr. Seuss, lék Stefán Karl um það bil 600 sinnum út um öll Bandaríkin fyrir um tvær milljónir áhorfenda.   

Stefán Karl var einnig liðtækur kvikmyndaleikari og lék meðal annars aðalhlutverkið í Kurteist fólk, í leikstjórn Ólafs Jóhannessonar, árið 2011 og lét að sér kveða í gamanmyndunum Harry & Heimir: Morð eru til alls fyrst, Stella í framboði og Jóhannes.

Stefán Karl stóð fyrir vitundarvakningu um einelti og afleiðingar þess um langt árabil og rak góðgerðarsamtökin Regnbogabörn í ein fimmtán ár. Upphaf Regnbogabarna og baráttu Stefáns Karls gegn einelti má rekja til þess að hann var fenginn til þess að ræða reynslu sína af einelti á fundi í grunnskóla þar sem hann talaði sem þolandi, gerandi og áhorfandi.

Upp frá því fór hann víða með fyrirlestra sína, ræddi við börn og foreldra og lét ítrekað að sér kveða í eineltismálum í fjölmiðlum. Regnbogabörn voru síðan stofnuð formlega í Þjóðleikhúsinu í nóvember 2002 þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, hvatti landsmenn til þess að fylkja sér að baki Stefáni Karli í baráttunni gegn einelti með því að skrá sig í samtökin.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sæmdi Stefán Karl riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrar leiklistar og samfélags á 17. júní á þessu ári.

Stefán Karl brann einnig fyrir lífrænni ræktum matvæla og stofnaði sprotafyrirtækið Sprettu sem ræktaði sprettur (microgreens) og salat. Hann var með framsæknar hugmyndir í grænmetisframleiðslunni og undir lok árs 2016 viðraði hann hugmynd sína um að stofna grænmetisframleiðslufyrirtæki íbyggingum Norðuráls í Helguvík, svokölluð kálver frekar en álver.

„Mengandi stóriðja er ekki rétta leiðin til að tryggja atvinnu fyrir fólk hér á landi, heldur á að rækta grænmeti til útflutnings. Suðurnesin eru besti staðurinn til þess með tengingu til bæði Bandaríkjanna og Evrópu,“ sagði Stefán Karl þegar hann kynnti kálvershugmynd sína.

Í september 2016 greindist Stefán Karl, nánast fyrir tilviljun og árvekni Steinunnar Ólínu, með krabbamein í gallrásum. „Nú er búið að rannsaka þetta fram og til baka og meinið reynist skurðtækt, sem betur fer. Og það verður mér til lífs, því þetta er bráðdrepandi krabbamein ef það reynist krabbamein á endanum,“ sagði Stefán Karl, yfirvegaður og æðrulaus, í viðtali við Vísi.is skömmu eftir að greiningin lá fyrir og stór og erfið skurðaðgerð var fram undan.

Undanfarin tvö ár hefur Stefán Karl barist við meinið með bjartsýnina að leiðarljósi. Hann og fjölskylda hans hafa upplifað vonir og vonbrigði og ætíð var trúin á lífið dauðanum yfirsterkari eins og Steinunn Ólína kjarnaði svo kröftuglega pistli sem hún skrifaði á vef sinn, Kvennablaðið.is, í mars á þessu ári:

„Ég mun aldrei bjóða þér að búa hjá mér því það er nákvæmlega ekkert varið í þig, Dauði. Vægðarleysi og grimmd þín er fyrirlitleg. Fokkaðu þér, Dauði.“

Þau hjónin notuðu allar stundir milli stríða í baráttunni við meinið til þess að skapa minningar með börnunum og stóðu keik til hinstu stundar. Sjálfsagt verður viðhorf þeirra til veikindanna ekki orðað betur en Stefán Karl gerði sjálfur í viðtali við Morgunblaðið í október í fyrra, eftir að hann og Hilmir Snær höfðu leikið Með fulla vasa af grjóti í síðasta sinn:

„Já, núna er þessum kafla lokið. Eins og Dr. Seuss sagði: „Ekki gráta af því þessu er lokið. Brostu yfir því að það gerðist.““