Hæstaréttarlögmennirnir Jónas Þór Guðmundsson og Stefán Geir Þórisson drógu umsóknir sínar um stöðu dómara við Mannréttindadómstól Evrópu til baka eftir að hafa farið til Strassborgar í viðtöl.

Tilkynnt var um það í gær að tveir af umsækjendunum þremur sem höfðu verið metnir hæfir hefðu dregið umsóknir sína til baka. Vendingarnar leiða af sér að skipun íslenskra dómara til Mannréttindadómstólsins er nú komin á byrjunarreit og að auglýsa verður dómarastöðurnar upp á nýtt.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var ferlið langt komið þegar þeir drógu sig í hlé.

Þrjú sóttu um stöðu íslensks dómara sem losnar í haust en auk þeirra tveggja sótti Oddný Mjöll Arnardóttir, landsréttardómari og rannsóknarprófessor um. Evrópuráðið kýs dómara og þar sem Oddný er ein eftir af þeim sem tilnefnd voru þarf að endurtaka allt umsóknarferlið.