Stjórn SÍBS vilja setja á laggirnar sérstaka starfsstjórn til að fara með málefni Reykjalundar meðan unnið er að því að koma á varanlegri stjórn og aðgreina rekstur og endurhæfingar frá annarri starfsemi og eignum SÍBS. Þetta kemur fram í tilkynningu sem SÍBS sendi frá sér rétt í þessu.

Stjórnin óskar eftir því við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að hún hlutist til að að starfsstjórn verði sett á laggirnar.

„Hagsmunir sjúklinga og faglegt starfsumhverfi Reykjalundar sem miðstöðvar þverfaglegrar endurhæfingar á Íslandi eru SÍBS ávallt efst í huga,“ segir í tilkynningu SÍBS.

Settur forstjóri hættir

Herdís Gunnarsdóttir, settur forstjóri Reykjalundur og fyrrverandi framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs, hefur ákveðið að hætta sem forstjóri.

„Strax á fyrsta degi í starfi varð mér ljóst að fram undan væru miklir óvissutímar. Forstjóra Reykjalundar hafði verið sagt upp störfum fáeinum klukkustundum eftir að ég ritaði undir ráðningarsamning og nokkrum dögum síðar framkvæmdastjóra lækninga. Staðan kom mér mjög á óvart, en síðar kom á daginn að við ráðningu mína hafði ég ekki verið upplýst um afar mikilvæg atriði sem vörðuðu starfsemina og innri samskipti á vinnustaðnum,“ segir Herdís í tilkynningu sem hún sendi á fjölmiðla rétt í þessu.

Hún segir atburðarásina frá umræddri uppsögn hafa dregið upp á yfirborðið mikla ólgu sem hefur kraumað undir yfirborðinu til lengri tíma.

Hún hafi sett tvö skilyrði fyrir þeirri tímabundnu skipan hennar í starf forstjóra: að starf forstjóra yrði auglýst og að skipuð yrði starfsstjórn með það að markmiðið að endurskipuleggja stjórnarfyrirkomulag, skipurit og rekstrarform á meðan unnið væri að varanlegri lausn.

„Hvoru tveggja er nú í góðum farvegi; ráðning forstjóra er í gangi og starfsstjórn Reykjalundar verður skipuð,“ segir Herdís.

Gekk inn í mjög erfiðar aðstæður

„Mín persóna hefur að ósekju dregist inn í deilur sem eiga sér djúpar rætur og forsögu sem er mér með öllu óviðkomandi. Ég gekk inn í mjög erfiðar aðstæður, að beiðni stjórnar SÍBS, og hef sem forstjóri komið því til leiðar sem ég taldi nauðsynleg næstu skref í flóknum aðstæðum.“

Herdís segist líta svo á að hún hafi lokið sem þeim verkefnum sem hún var kölluð til og óskar hún Reykjalundi alls hins besta og vonar að starfsfólki og framtíðarstjórnendum gangi vel að vinna úr „þeim áföllum sem dunið hafa yfir.“