Sérstök þriggja manna starfsstjórn Reykjalundar hefur nú verið sett á fót fyrir tilstilli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og var stjórnin kynnt fyrir starfsfólki í morgun. Samkvæmt fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu leitaði stjórn SÍBS til heilbrigðisráðherra vegna vandans sem fjallað hefur verið um á Reykjalundi.
„Þetta er lykilstofnun á sviði endurhæfingar þar sem býr mikill mannauður, þekking og djúp reynsla sem ekki má glatast. Með þetta í huga lagði ég áherslu á að finna fólk í starfsstjórnina sem nýtur traust innan og utan Reykjalundar og er fært um að stíga inn í aðstæður og skapa sátt og vinnufrið á Reykjalundi,“ segir Svandís í tilkynningunni og telur að um sé að ræða mikilvægt fyrsta skref.
Mikil óánægja með stjórn SÍBS
Þá kemur fram að starfsstjórnin hafi fullt sjálfstæði og óskorað umboð til athafna við stjórnun stofnunarinnar á meðan unnið er að því að aðgreina rekstur Reykjalundar frá annarri starfsemi Reykjalundar. Endurhæfingarlæknirinn Stefán Yngvason verður formaður starfsstjórnarinnar en auk hans sitja í stjórn Anna Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur og Óskar Jón Helgason sjúkraþjálfari.
Mikil óánægja hefur verið á Reykjalundi vegna stjórn SÍBS en frá því að forstjóri Reykjalundar og framkvæmdastjóra lækninga var sagt upp í byrjun október hafa níu læknar sagt upp störfum. Þá hafa bæði settur forstjóri Reykjalundar, Herdís Gunnarsdóttir, og nýr framkvæmdastjóri lækninga, Ólafur Þór Ævarsson, sagt upp eftir minna en mánuð í starfi.
