Kennari og þrír starfsmenn grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu hafa verið kærðir til lögreglu vegna meðferðar á barni og meintra brota á hegningarlögum og barnalögum.

Barnið var að minnsta kosti tvisvar lokað eitt inni í skólanum.

Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að embættið hafi móttekið kæru er varðar ofbeldi gegn barni í skóla á starfssvæðinu.

„Rannsókn er þegar hafin en ekki verða veittar frekari upplýsingar um framgang hennar að svo komnu máli,“ segir Grímur í svari til Fréttablaðsins.

Innilokanir barna og aðskilnaður þeirra frá samnemendum sínum eru til skoðunar hjá umboðsmanni Alþingis, sem ítrekaði um miðjan síðasta mánuð fyrirspurn frá því í fyrra, til bæði menntamálaráðuneytisins og fjögurra sveitarfélaga á bæði höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, um slík mál eftir að embættinu höfðu borist ábendingar.

Frestur þeirra til að svara rann út í gær og eru svörin að tínast inn samkvæmt svari frá umboðsmanni Alþingis. Einn skólanna óskaði eftir stuttum viðbótarfresti og var hann veittur.

Eftir umfjöllun Fréttablaðsins um fyrrnefnda athugun umboðsmanns hafa blaðinu borist ábendingar um mál af þessum toga, sem varða nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu.

Sömu sögu er að segja af umboðsmanni Alþingis. Aðspurð segir Vilhelmína Ósk Ólafsdóttir, skrifstofustjóri á sviði frumkvæðismála og OPCAT hjá embættinu, að viðbrögð og ábendingar sem þeim hafa borist eftir umfjöllun fjölmiðla um málið, sýni að það hafi verið rétt ákvörðun að hefja athugun á málinu á ný.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Vilhelmína er Ólafsdóttir en ekki Sigurðardóttir og titill hennar hefur einnig verið leiðréttur.