Samkomulag hefur náðist milli samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefnda Starfsgreinasambandsins (SGS) og Eflingar um endurskoðun viðræðuáætlunar. Er nú stefnt að því að gera nýjan kjarasamning fyrir 20. október næstkomandi.

Samkvæmt samkomulaginu, sem var undirritað síðastliðinn mánudag, fá starfsmenn SGS og Eflingar greidda 125 þúsund króna innágreiðslu inn á væntanlegan kjarasamning um næstu mánaðamót. Miðast upphæðin við fullt starf og fá starfsmenn í fæðingarorlofi og tímavinnufólk einnig greiðsluna.

Það er sameiginlegur skilningur aðila að þessi fjárhæð sé hluti fyrirhugaðra launabreytinga á gildistíma nýs kjarasamnings. Verður fjárhæðin metin sem hluti kostnaðaráhrifa samninganna.

„Við fögnum því að vera sest aftur af samningaborðinu og farin að vinna í því í alvöru að gera kjarasamning,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS.

Samhliða undirritun samkomulagsins drógu SGS og Efling vísun deilunnar til ríkissáttasemjara til baka. Viðræður aðila hófust á ný í morgun og segir Flosi að einnig verði fundað á morgun og hinn.

Undirritun samkomulagsins hefur hins vegar engin áhrif á málarekstur SGS fyrir Félagsdómi. Vill SGS í því máli láta reyna á túlkun ákvæðis frá 2009 um skyldu sveitarfélaga til kjaraviðræðna um jöfnun lífeyrisréttinda.