Þrettán prósent starfsmanna Menntamálastofnunar segjast hafa orðið fyrir einelti í starfi. Meirihluti starfsfólks treystir hvorki forstjóra né yfirstjórn.

Þrettán prósent starfsmanna Menntamálastofnunar (MMS) segjast hafa orðið fyrir einelti í starfi og 25 prósent starfsmanna segjast hafa orðið vitni að því að aðrir starfsmenn hafi orðið fyrir einelti á síðustu tólf mánuðum.

Þetta eru niðurstöður könnunar á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í vor.

Í sömu könnun kemur fram að 61 prósent starfsmanna stofnunarinnar ber ekki traust til forstjóra MMS, Arnórs Guðmundssonar, og 60 prósent starfsmanna bera ekki traust til yfirstjórnar stofnunarinnar. Svarhlutfall starfsmanna var 98 prósent.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa þrír starfsmenn sagt upp vegna þess sem þeir lýsa sem stjórnunarvanda, stefnuleysi, hentileikastefnu, skorti á yfirsýn yfir verkefni og fjármál og eineltistilburðum forstjórans.

Einn starfsmaður, sem vill ekki koma fram undir nafni, segir starfsmenn vinna undir ógnarstjórnun og þöggunarmenningu sem birtist til dæmis í hótunum um brottrekstur. Í viðhorfskönnun menntamálaráðuneytisins lýsa sumir starfsmenn starfsanda sem þungum, þeir séu hræddir um störf sín og þori ekki að tjá skoðanir sínar.

„Fólk er hrætt við að verða refsað, sett út í kuldann og jafnvel sagt upp ef það vill rökræða málin,“ segir í ummælum starfsmanna.

Einn starfsmaður sem sagt hefur upp störfum gengur svo langt að bera starfsandann hjá MMS saman við stjórnunartilburði í alræðisríkjum. Sorglegt sé að þurfa að flýja vinnustað til margra ára.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eineltismál koma upp hjá Menntamálastofnun. Í niðurstöðum og úrbótatillögum skýrslu ráðgjafarfyrirtækis um eineltismál, sem gerð var í fyrra að beiðni menntamálaráðuneytisins, var stjórnun MMS metin áhættuþáttur fyrir félagslega og andlega heilsu á vinnustaðnum og lagt til að verkferlar í eineltismálum yrðu yfirfarnir.

Uppsöfnuð óánægja meðal starfsmanna MMS gagnvart yfirstjórn beinist einna helst að forstjóra stofnunarinnar. Hafa starfsmenn ítrekað óskað eftir umbótum. Ráðuneytið hefur nú ráðið mannauðsfyrirtækið Auðnast til að vinna umbótaáætlun og gera heilsufarsmat á starfsmönnum MMS og mun sú vinna hefjast að loknu sumarfríi.

Arnór Guðmundsson, forstjóri MMS, staðfestir að málið sé í ferli í samstarfi við ráðuneytið en vill ekki tjá sig nánar um það að svo stöddu.

„Það verður unnið með ráðgjöfum við að fara í gegnum þessi atriði og ná fram sjónarmiðum starfsfólks og vinna úr þessu,“ segir Arnór.