Marel og Rauði krossinn hafa frá árinu 2019 unnið saman að sam­fé­lags­verk­efnum víða um heim. Í þeirri við­leitni stóð Marel fyrir á­takinu Move the Globe meðal starfs­fólks síns sem stóð frá 6. septem­ber til 4. októ­ber. Þá hreyfðu starfs­menn Marels um allan heim sig eins mikið og þeir mögu­lega gátu og ferðuðust þannig yfir 160 þúsund kíló­metra, sem jafn­gildir fjórum hringjum í kringum jörðina. Um sjö þúsund manns starfa hjá Marel í meira en 30 löndum.

Þor­steinn Kári Jóns­son, for­stöðu­maður sjálf­bærni og sam­fé­lags­tengsla hjá Marel, segir fyrir­tækið leggja mikla á­herslu á sjálf­bærni og sam­fé­lags­lega á­byrgð í sínum rekstri og Move the Globe sé þáttur í því.

Söfnuðu 37,2 milljónum

Mark­miðið var að safna fé fyrir verk­efni Rauða krossins fyrir íbúa og fólk á flótta í norður­hluta Brasilíu, en yfir 600 manns starfa fyrir Marel í landinu. Fyrir hvern hring í kringum jörðina lagði Marel til 50 þúsund evrur og 50 þúsund til við­bótar að á­takinu loknu. Því söfnuðust 250 þúsund evrur, um 37,2 milljónir ís­lenskra króna.

Hér var unnið í að koma vatni til íbúa í norður­hluta Brasilíu þar sem hí­býli fólks eru ekki upp á marga fiska.
Mynd/B. Mast/ICRC

Meðal þess sem starfs­menn fyrir­tækisins tóku sér fyrir hendur var sjósund við Ís­lands­strendur, að hjóla í vinnuna, brimbretta­æfingar, göngu­túrar með fjöl­skyldunni og skokk á skrif­stofunni. Til að mynda skoraði markaðs­deild fyrir­tækisins hér á landi á markaðs­deildina í Kaup­manna­höfn að halda hlaupa­bretti gangandi allan daginn, hlaupa­bretti var komið upp á báðum skrif­stofum Marels og skiptust starfs­menn á að labba og hlaupa án þess að slökkva á brettinu í sam­fleytt sjö klukku­tíma.

Starfs­menn Marel um allan heim lögðu sitt að mörkum.
Mynd/Aðsend

Megum ekki bugast

„Þetta var mjög gott fram­tak hjá Marel að sam­tvinna hreyfingu, lýð­heilsu og á­byrgð,“ segir Kristín S. Hjálm­týs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Rauða krossins. „Þetta er fal­legt sam­starf og við erum þakk­lát því hvernig Marel nálgast sína sam­fé­lags­legu á­byrgð með okkur.“

Rauði krossinn starfar um allan heim, segir Björg Kjartans­dóttir, sviðs­stjóri fjár­öflunar- og kynningar­sviðs Rauða krossins, enda fjöl­mennasta mann­úðar­hreyfing heims og sam­starf við hana gefur fyrir­tækjum tæki­færi til að styðja við sam­fé­lög nánast alls staðar, líka á Ís­landi.

Ásgeir stundaði brimbretti en starfs­menn Marel tóku sér ýmis­legt fyrir hendur í á­takinu
Mynd/Aðsend

Það má ekki bugast yfir þeim verk­efnum sem heims­byggðin stendur frammi fyrir sem geta verið yfir­þyrmandi.

„Það má ekki bugast yfir þeim verk­efnum sem heims­byggðin stendur frammi fyrir sem geta verið yfir­þyrmandi,“ segir Björg. „Til­gangur Rauða krossins er að vernda líf og heilsu ber­skjaldaðra hópa og tryggja virðingu fyrir mann­legu lífi, í slíkum verk­efnum skiptir allur stuðningur máli,“ bætir hún við.

Hún segir að fyrir­tæki á borð við Marel vilji styðja við verk­efni sem Rauði krossinn stendur fyrir og fjár­magnið nýtist vel. Fjár­magnið sem safnaðist með verk­efninu Move the Globe hjá Marel mun sannar­lega koma sér vel fyrir íbúa í norður­hluta Brasilíu. Mikil á­hersla sé lögð á ná­kvæmt bók­hald hjá Rauða krossinum, um hvernig fjár­magnið nýtist.

Mark­miðið var að safna fé fyrir verk­efni Rauða krossins fyrir íbúa og fólk á flótta í norður­hluta Brasilíu.
Mynd/B. Mast/ICRC

Gagn­sæi og traust mikil­vægt

„Það er gagn­sæið og traustið sem skiptir máli og að við sjáum að við séum að reyna að gera heiminn betri í dag en í gær, með fram­lagi frá Ís­landi. Þörfin er mikil á heims­vísu en allt skiptir máli. Við erum með þetta glæsi­lega fyrir­tæki Marel, sem er með skýra sýn á hvernig það vill vinna og tekur starfs­fólkið með í mann­úðar­verk­efni.“

Kröfur til fyrir­tækja um að sýna sam­fé­lags­lega á­byrgð aukast sí­fellt, frá hlut­höfum, starfs­fólki og þeim sam­fé­lögum þar sem þau starfa. Kristín segir mikinn feng í að fá fyrir­tæki til sam­starfs. „Fyrir­tækin eru með þekkingu, fjár­muni og tíma starfs­manna, svo ýmsir mögu­leikar eru á sam­starfi við Rauða krossinn til að gera heiminn betri í dag en hann var í gær,“ segir hún.

Val­dís gekk um fjöll og firnindi.
Mynd/Aðsend

„Við teljum nauð­syn­legt að fyrir­tæki sem stundi al­þjóð­lega starf­semi séu með skýra sýn á það fyrir hvað þau standa,“ segir Þor­steinn.

„Þú þarft að gefa til baka líka, þú þarft að sýna að þú sért þátt­takandi í sam­fé­laginu. Síðan ertu með sjálf­bærni­mál, bæði innri málin á borð við fjöl­breyti­leika og þátt­töku starfs­fólks og lofts­lags­málin í okkar eigin rekstri. Á­hrif okkar skipta okkur mjög miklu máli, hvaða á­hrif við höfum á við­skipta­vini okkar og þá sér í lagi hvernig við getum stuðlað að aukinni sjálf­bærni og sjálf­bærri þróun með starf­semi okkar. Það er okkar á­byrgð að fylgja eftir sýn okkar, sem er að um­bylta því hvernig mat­væli eru fram­leidd, gera það á sjálf­bæran og hag­kvæman máta. Þar sem við náum ekki að gera það með okkar vöru­þróun eða sölu, getum við farið í sam­starf við aðila sem eru með mann­lega inn­viði til að vinna að okkar sýn,“ segir Þor­steinn.

Erum með skýra stefnu

Hann segir að á­kvarðanir um hvaða verk­efni Marel styrkir séu teknar af for­stjóranum, lykil­stjórn­endum og stjórn fyrir­tækisins. Verk­efnið í Brasilíu hafi verið skýrt og „sam­ræmst okkar sýn og metnaði“ að sögn Þor­steins.

Starfs­menn Marel í Kína létu sitt ekki eftir liggja.
Mynd/Aðsend

„Við erum með skýra stefnu sem hjálpar okkur mikið að taka á­kvarðanir. Fjár­munirnir sem við leggjum til eru um­tals­verðir, til dæmis í Brasilíu 37 milljónir króna. Við settum 162 milljónir króna í sam­starfs­verk­efni með Rauða krossinum í Súdan. Marel hefur einnig styrkt vatns­verk­efni Rauða krossins í Malaví um rúm­lega 90 milljónir ís­lenskra króna. Við þurfum að vita að þetta sé að fara á réttan stað og sé gert með réttum hætti.“

Ekki sé flókið fyrir fyrir­tæki að leita til Rauða krossins eins og Marel hafi gert, enda búi starfs­fólk hans yfir gríðar­legri þekkingu og reynslu.

Við viljum með því fyrst og fremst hvetja fleiri fyrir­tæki til að kanna þessa mögu­leika.

Lítið hefur farið fyrir sam­starfs­verk­efnum Marel og Rauða krossins fram að þessu og segir Þor­steinn skipta máli að nálgast mála­flokkinn af auð­mýkt. „Við viljum með því fyrst og fremst hvetja fleiri fyrir­tæki til að kanna þessa mögu­leika og átta sig á því að á­standið þarfnast okkar, ís­lenskra fyrir­tækja, bæði hérna heima og er­lendis.“

Björg segir að ís­lensk fyrir­tæki vilji leggja sitt af mörkum en fresti stundum slíkri á­kvörðun fram til næsta árs eða þar­næsta árs. „Það er frá­bært, komið til okkar á næsta ári, en af hverju ekki strax? Þessa á­kvörðun er svo auð­velt að taka í dag.

Við­móts­kraftur Rauða krossins verður ekki til staðar nema við séum í sam­starfi við fyrir­tæki og við höfum sannar­lega fundið fyrir því á tímum Co­vid að fyrir­tæki eru að sýna aukinn vilja til að taka þátt,“ segir Björg að lokum.

Natali­a Cuche hjólaði fyrir Move the Globe.
Mynd/Aðsend