Tólf einstaklingar voru lagðir inn á Landspítala í Foss­vogi í gær vegna COVID-19 en tíu af þeim eru sjúklingar á Landakoti.

Í gær greindust tíu starfsmenn og sextán sjúklingar á Landakoti með COVID-19.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra LSH, segir að áfram verði skimað í dag og verið sé að bíða niðurstaðna úr sýnum sem voru tekin eftir hádegi í gær.

Búið er að kalla út bakvarðarsveit ásamt starfsfólki, sem er nú þegar í sóttkví, til starfa. Þeir starfsmenn eru í svokallaðri sóttkví-b, þ.e. eru einkennalausir og hafa fengið neikvæðar niðurstöður úr skimun. Slíkir starfsmenn eru kallaðir til vinnu í tilvikum þar sem ekki er hægt að tryggja öryggi sjúklinga án vinnuframlags þeirra.

„Við gerum ráð fyrir að geta sinnt því sem þarf,“ segir Anna Sigrún um stöðuna á Landspítala.

Á Landspítala eru 31 sjúklingur inniliggjandi vegna COVID-19 en alls hafa verið 92 inniliggjandi frá upphafi þriðju bylgju faraldursins.

Í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd Landspítala kemur fram að:

  • 4 eru á gjörgæslu.
  • 1 sjúklingur í öndunarvél.
  • 1.089 sjúklingar í eftirliti Covid-19 göngudeildar — þar af 185 börn.
  • 175 starfsmenn í sóttkví.
  • 25 starfsmenn í einangrun.

Landspítali er áfram á hættustigi og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd nú þrisvar í viku en oftar ef þörf er á.