Fimm starfsmenn daggæsluheimilis í bænum Hamilton í Mississippi í Bandaríkjunum eiga yfir höfði sér refsingu fyrir að hræða líftóruna úr börnum á dagheimilinu. Myndband af athæfi starfsmannanna var birt í bandarískum fjölmiðlum og hefur það vakið reiði margra.
Í myndskeiði sem fór í dreifingu má meðal annars sjá einn starfsmann með Scream-grímu fyrir andlitinu ganga ógnandi að börnunum. Eðli málsins samkvæmt voru börnin logandi hrædd, grétu hástöfum og virtust sum lömuð af ótta þegar starfsmenn nálguðust þau.
Starfsmennirnir, fimm konur á þrítugsaldri hafa nú verið kærðar fyrir ofbeldi og gætu fjórar þeirra átt yfir höfði sér fangelsisrefsingu vegna málsins.
„Sem faðir sjálfur og einhver sem hefur samkennd með þeim sem geta ekki varið sig viðurkenni ég að það var erfitt að horfa á þessi myndbönd,“ segir Kevin Crook, lögreglustjóri í Hamilton, við bandaríska fjölmiðla. „Mín viðbrögð eru þau sömu og allra annarra: Þær eiga skilið að verða refsað fyrir þetta.“
Inside Edition ræddi við foreldra tveggja barna sem sjást í myndböndunum og eðli málsins samkvæmt eru þeir reiðir vegna málsins. „Þú vinnur á dagheimili, svona gerir maður ekki,“ segir móðir ungrar stúlku sem birtist í myndbandinu.
