Fimm starfs­menn dag­gæslu­heimilis í bænum Hamilton í Mississippi í Banda­ríkjunum eiga yfir höfði sér refsingu fyrir að hræða líf­tóruna úr börnum á dag­heimilinu. Mynd­band af at­hæfi starfs­mannanna var birt í banda­rískum fjöl­miðlum og hefur það vakið reiði margra.

Í mynd­skeiði sem fór í dreifingu má meðal annars sjá einn starfs­mann með Scream-grímu fyrir and­litinu ganga ógnandi að börnunum. Eðli málsins sam­kvæmt voru börnin logandi hrædd, grétu há­stöfum og virtust sum lömuð af ótta þegar starfs­menn nálguðust þau.

Starfs­mennirnir, fimm konur á þrí­tugs­aldri hafa nú verið kærðar fyrir of­beldi og gætu fjórar þeirra átt yfir höfði sér fangelsis­refsingu vegna málsins.

„Sem faðir sjálfur og ein­hver sem hefur sam­kennd með þeim sem geta ekki varið sig viður­kenni ég að það var erfitt að horfa á þessi mynd­bönd,“ segir Kevin Crook, lög­reglu­stjóri í Hamilton, við banda­ríska fjöl­miðla. „Mín við­brögð eru þau sömu og allra annarra: Þær eiga skilið að verða refsað fyrir þetta.“

Insi­de Edition ræddi við for­eldra tveggja barna sem sjást í mynd­böndunum og eðli málsins sam­kvæmt eru þeir reiðir vegna málsins. „Þú vinnur á dag­heimili, svona gerir maður ekki,“ segir móðir ungrar stúlku sem birtist í mynd­bandinu.

Skjáskot úr einu myndbandanna.