Minnisblað sem varðar kvöldverði og tækifærisgjafir sem forstjóri og starfsmenn Bankasýslu ríkisins fengu frá fjármálafyrirtækjum hefur verið skilað til Fjárlaganefndar.

Þar kemur meðal annars fram að starfsmenn Bankasýslunnar hafi síðasta í september og nóvember á síðasta ári tvisvar sinnum sótt kvöldverði á vegum Íslandsbanka. Kostnaður á hvern þátttakanda í kvöldverðinum var annars vegar um það bil 34 þúsund krónur á mann, og hins vegar um 48 þúsund krónur á mann. Það var Íslandbanki sem greiddi reikninginn, nánar tiltekið starfsmenn og forstjóri bankans.

Fram kemur að þessir fundir hafi verið haldnir til að fagna frumútboðinu í Íslandsbanka, sem lauk í júní í fyrra.

Vín, kokteilasett og flugeldur til starfsmanna

Minnisblaðið kemur til Alþingis tæpum sex mánuðum eftir að óskað var eftir því, en þar er jafnframt greint frá tækifærisgjöfum sem starfsmenn Bankasýslunnar fegnu um um jól og áramót í fyrra.

Á meðal þess sem starfsmennirnir fengu frá hinum ýmsu fjármálafyrirtækjum voru vínflöskur, konfekt, kokteilasett og flugeldur. Listinn sem birtur er af tækifærisgjöfunum í minnisblaðinu er eftirfarandi:

„Frá ACRO verðbréfum Vínflaska. Kostnaður var um 4.000 kr.

Frá Íslenskum verðbréfum Tvær vínflöskur. Samtals kostnaður var um 8.000 kr.

Frá Landsbankanum Konfektkassi. Kostnaður var 4.067 kr.

Frá lögmannsstofunni BBA/Fjeldco Kokteilasett. Kostnaður við hverja jólagjöf var um 20 þúsund kr.

Frá verðbréfmiðlun og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka Stöðluð jólagjöf bankans til stærri viðskiptavina þessara deilda. Ein léttvínsflaska og smáréttir. Kostnaður við hverja jólagjöf var um 14 þúsund kr.

Frá vini forstjóra, sem starfar hjá fjármálafyrirtæki Flugeldur. Kostnaður var um 2.500 kr. Þetta hefur verið staðfest sem vinagjöf af viðkomandi einstaklingi.“

Tuttugu vinnufundir í apríl með hóflegum veitingum

Þá segir að í apríl í fyrra hafi Bankasýsla ríkisins átt tuttugu vinnufundi með ýmsum fjármálafyrirtækjum, þar sem veitingar voru í boði. Í minnisblaðinu er því haldið fram að starfsmenn stofnunarinnar hafi ekki átt slíka fundi með neinum öðrum aðilum.

„Efni þessara funda voru m.a. kynning á starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækis, framkvæmd frumútboðs, fyrirætlanir ríkissjóðs sem hluthafa um frekari sölu (eftir að þær höfðu verið kunngjörðar með framlagningu fjárlagafrumvarps), áhugi og bolmagn fjárfesta, þróun á hlutabréfaverði og afkomu Íslandsbanka, staða og horfur á íslenskum fjármálamarkaði og í íslensku efnahagslífi.“ segir í minnisblaðinu. 

Fram kemur að umræddir vinnufundir hafi yfirleitt átt sér stað í hádeginu, og aldrei verið kvöldverðarfundir. Þá segir að veitingarnar á fundunum hafi verið hóflegar, og kostnaður við þær veitingar óverulegar.