Allir starfs­menn Banka­strætis Club hafa farið í skimun eftir að einn starfs­maður reyndist smitaður í síðustu viku. Þetta kemur fram í svari Banka­strætis Club við fyrir­spurn Frétta­blaðsins.

„Enginn annar starfs­maður reyndist smitaður,“ segir Ást­hildur Bára Jens­dóttir, rekstrar­stjóri Banka­strætis Club. „Við vonum að allir okkar gestir sem voru á staðnum í síðustu viku hafa farið í sýna­töku líka og þökkum fyrir sam­stöðuna,“ bætir Ást­hildur við.

Tvö smit í síðustu viku voru rakin til Banka­strætis Clubs. Meðal þeirra var einn starfs­maður en eftir skimun er ljóst að hann hefur ekki smitað sam­starfs­fé­laga sína.

„Við hvetjum alla til að halda á­fram að fara var­lega bæði inn á okkar stað og út í sam­fé­laginu,“ segir Ást­hildur.

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir í sam­tali við RÚV að smit undan­farna daga megi rekja til EM-ferðar til London og Banka­strætis Club. Lang­flestir sem hafa smitast síðustu daga eru full­bólu­settir.

Sam­kvæmt Kára Stefáns­syni, for­stjóra Ís­lenskrar erfða­greiningar, eru afar litlar líkur á að bólu­settir sem smitast veikist al­var­lega. Um 99,5% bólu­settra sem smitast veikjast ekki al­var­lega að sögn Kára.