Starfs­menn ÁTVR fengu úlpu af gerðinni Dyngja frá ís­lenska úti­vistar­fyrir­tækinu 66° Norður í sumar­gjöf. Þar að auki fengu þeir í­þrótta­bol af gerðinni Aðal­vík frá fyrir­tækinu. Þetta stað­festir Sig­rún Ósk Sigurðar­dóttir, að­stoðar­for­stjóri ÁTVR, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Alls fengu 472 starfs­menn, bæði í fullu starfi og hluta­starfi, gjöfina og nam kostnaðurinn 42.100 krónum á mann. Sam­tals nemur kostnaðurinn við gjöfina því tæpum 19,9 milljónum króna.

Sam­kvæmt vef­síðu 66°Norður kostar ný úlpa af þessari gerð 62 þúsund krónur. „Flíkin er hönnuð fyrir dag­legt líf í borginni eða hvers konar stúss á veturna,“ segir á vef fyrir­tækisins og tekið fram að úlpan henti jafnt konum sem körlum.

Aðal­vík er úti­vistar­bolur sem þykir henta vel í hlaup, göngur og hjól­reiðar svo dæmi séu tekin. Sam­kvæmt vef­síðu 66° Norður kostar bolurinn 11 þúsund krónur.

ÁTVR hefur jafnan gefið starfs­fólki sínu, hvort sem það er í fullu starfi eða hluta­starfi, veg­legar sumar­gjafir. Árið 2015 var greint frá því að starfs­fólk hefði fengið 60 þúsund króna göngu­buxur og árið 2014 fengu starfs­menn skó og flís­peysu.