Starfsmaður slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu ber ábyrgð á klámmyndbandi sem hefur verið til mikillar umfjöllunar síðustu daga. Þessum starfsmanni hefur verið sagt upp störfum.

Þetta kemur fram í tilkynningu en þar segir að málinu sé nú lokið af hálfu þessa starfsmanns.

„Við erum algjörlega miður okkar að allt það frábæra starfsfólk sem starfar hjá SHS, vinnustaðurinn og okkar störf hafi verið dreginn inn í mál af þessu tagi.“ segir í tilkynningunni.

Klámmyndbandið var tekið upp í sjúkrabíl á vegum slökkviliðsins og fékk það í kjölfarið ábendingu um það. Fram kemur að þessi ábending hafi verið tekin alvarlega og var málið rannsakað innanhúss. Þrátt fyrir það hafi ekki hægt að staðfesta tengsl slökkviliðsins við málið með þeim gögnum sem þá lágu fyrir.

Í gær, þegar málið fór í fjölmiðla, hafi fleiri ábendingar borist sem hægt var að fylgja eftir, og þá kom í ljós að starfsmaður slökkviliðsins bæri ábyrgð á því.