Haraldur Gísla­son, for­maður Fé­lags leik­skóla­kennara, segir á­nægju­legt að starfs­manna­velta meðal leik­skóla­starfs­fólk hafi minnkað á milli ára.

Hann segir þó enn til­efni til að vinna að því að minnka hana enn frekar og að eitt af því sem hafi virkað vel sé að hvetja fólk sem þegar starfar innan leik­skólanna til að sækja sér leyfis­bréf.

Í nýjum tölum frá Hag­stofunni kemur fram að starfs­manna­velta í leik­skólum á milli áranna 2019 og 2020 var 20 prósent og að hún hafi ekki verið hlutfallslega minni frá því að Hag­stofan hóf að birta gögn um starfs­fólk í leik­skólum árið 1999, eða í 21 ár.

Í gögnum Hag­stofunnar eru bornir saman þeir starfs­menn sem störfuðu í leik­skólum þann 1. desember 2019 og voru enn við störf á sama tíma árið 2020. Undan­farin ár hefur starfs­manna­veltan verið 23 til 27 prósent á milli ára.

„Starfs­manna­veltan er al­mennt mikil meðal ó­fag­lærðs starfsfólks og starfs­fólk sem hefur aðra há­skóla­menntun en leik­skóla­fræði. Starfs­manna­velta meðal þeirra sem hafa leyfis­bréf er lang­minnst og hefur alltaf verið,“ segir Haraldur.

Hann segir starfs­manna­veltu dýra fyrir sveitar­fé­lög og að fé­lagið hafi lengi bent á það að þau ættu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fjölga leik­skóla­kennurum. Hann segir að mark­hópurinn sé stór meðal þeirra sem starfa þegar innan leik­skólanna, bæði meðal ó­fag­lærðra og þeirra sem eru með aðra há­skóla­menntun, til að hvetja til að sækja sér frekari menntun.

Hann segir að fé­lagið hafi frá 2014 styrkt um 200 ein­stak­linga til að fara í nám og sækja sér leyfis­bréfið.

„Slíkt dregur úr starfs­manna­veltu því þau fara á betri kjör og fá meiri tíma til undir­búnings­vinnu.“

Alls störfuðu 6.777 í leik­skólum í desember 2020 og hafði fjölgað um 367, eða tæp sex prósent, frá fyrra ári þrátt fyrir að leik­skóla­börnum hafi einungis fjölgað um 134 eða tæpt prósent börn á sama tíma.
Fréttablaðið/Vilhelm

Starfsfólki fjölgað umfram fjölgun barna

Fram kemur í tölum Hag­stofunnar að sam­tals störfuðu 1.628 leik­skóla­kennarar í leik­skólum á Ís­landi í desember 2020, eða 25,7 prósent starfs­fólks við upp­eldi og menntun barna, og hefur þeim fjölgað um 43 frá síðasta ári.

Alls höfðu 1.227 starfs­menn við upp­eldi og menntun leik­skóla­barna lokið annarri upp­eldis­menntun, svo sem grunn­skóla­kennara­námi, þroska­þjálfun, diplóma­námi í leik­skóla­fræðum eða leik­skóla­liða­námi og hefur orðið tölu­verð fjölgun í þeim hópi síðustu ár. Af þessum starfs­mönnum voru 114 kennarar sem höfðu menntað sig til kennslu á öðrum skóla­stigum en leik­skóla­stigi.

Ó­fag­lært starfs­fólk var rúm­lega helmingur, eða 55 prósent starfs­fólks við upp­eldi og menntun leik­skóla­barna í desember 2020.

Alls störfuðu 6.777 í leik­skólum í desember 2020 og hafði fjölgað um 367, eða tæp sex prósent, frá fyrra ári þrátt fyrir að leik­skóla­börnum hafi einungis fjölgað um 134 eða tæpt prósent börn á sama tíma.

„Þetta á sér marg­þættar skýringar og til dæmis fjölgaði undir­búnings­tímum í síðustu kjara­samningum sem leiðir til aukinnar mönnunar. Það fjölgaði líka um þrjá leik­skóla og svo hafa sveitar­fé­lög verið að reyna að auka rými og fækka barna­hópum og auka við starfs­fólkið,“ segir Haraldur.

Hækkandi aldur enn áhyggjuefni

Í gögnum Hag­stofunnar kemur fram eins og áður að aldur stéttarinnar fer tals­vert hækkandi. Sam­kvæmt gögnunum er tæp­lega fimmtungur leik­skóla­kennara 60 ára og eldri og hafði leik­skóla­kennurum á þessum aldri fjölgað meira en leik­skóla­kennurum í yngri aldurs­hópunum. Tæpur fimmtungur leik­skóla­kennara var undir fer­tugu en rúm 62 prósent leik­skóla­kennara voru á aldrinum 40-59 ára.

Þá kemur fram að sé horft til allra starfs­manna leik­skóla voru leik­skóla­kennarar meira en helmingur allra starfs­manna leik­skóla sem voru 60 ára og eldri en þeir voru innan við fimmtungur starfs­fólks á aldrinum 30-39 ára og enn lægra hlut­fall yngra starfs­fólks.

„Þetta hefur verið fyrir­séð og við höfum að sjálf­sögðu á­hyggjur af því að stéttin sé að eldast en á móti kemur að það hefur verið veru­leg fjölgun síðustu fimm eða sex ár í leik­skóla­fræðunum. Ég er ekki með aldurs­sam­setningu þess hóps en við vonum að hann sé yngri í miklum meiri­hluta. En það tekur tíma að mennta fólk,“ segir Haraldur.

Hann segir að meðal þeirra sem starfa innan leik­skólanna en eru með aðra há­skóla­menntun sé yngra fólk og að það sé mark­hópur sem að þau hvetji sér­stak­lega til að sækja sér leyfis­bréf því að þau vilji að stærstu hluti vinni eftir fræðum leik­skóla­fræðanna sem snúist um nám í gegnum leik.

Haraldur segir styttingu vinnu­vikunnar án þjónustu­skerðingar eða kostnaðar­auka ó­gerning.
fréttablaðið/anton

Aldrei hafa fleiri karlar starfað á leik­skólum

Karl­kyns starfs­menn í leik­skólum voru 546 í desember 2020, eða 8,1 prósent starfs­fólks, og hafa aldrei verið fleiri. Karl­kyns starfs­mönnum fjölgaði um 18,2 prósent frá desember 2019.

„Það er á­nægju­legt. Þetta hefur hægt og bítandi verið að gerast og við vonum að þessi fjölgun haldi á­fram og líka fjölga í hópi þeirra sem eru með leyfis­bréf,“ segir Haraldur.

Stytting vinnuvikunnar erfið í innleiðingu

Spurður al­mennt um stöðuna innan leik­skólanna í heims­far­aldrinum segir Haraldur að allar tak­markanir í leik­skólum séu á­lags­aukandi og þrengi að starfi innan leik­skólanna. Hann segir að verk­efni um styttingu vinnu­vikunnar hafi einnig haft mikil á­hrif og að það þurfi að taka til skoðunar í næstu kjara­samnings­við­ræðum.

„Þegar það koma á tak­markanir þá er það vont og það er auð­vitað betra þegar það er slakað á. Verk­efnið um styttingu vinnu­vikunnar hefur verið mjög erfitt í inn­leiðingu í leik­skólunum og það er alveg klár­lega eitt­hvað sem við munum ræða við okkar við­semj­endur í næstu kjara­samningum. Stytting vinnu­vikunnar án þjónustu­skerðingar eða kostnaðar­auka er ó­gerningur og leik­skólinn er miklu líkari vakta­vinnu­stöðum heldur en hefð­bundnum vinnu­stöðum. Þetta verk­efni hefur verið mjög erfitt í leik­skólum. Starf­semin er öðru­vísi. Þegar einn fer út þarf annar að koma á móti. Þú geymir ekki verk­efnin til morguns, verk­efnin færast yfir á næsta mann. Þetta er á­skorun sem er fram undan,“ segir Haraldur.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Fyrst stóð í fyrirsögn Starfs­manna­velta ekki verið minni í leik­skólum í 20 ár en því hefur verið breytt í Starfs­manna­velta ekki verið hlutfallslega minni í leik­skólum í 21 ár til að skýra betur hvað er átt við. Leiðrétt 19.11.2021 klukkan 10:40.