Starfsmaður á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar rotaðist þegar hann fékk járnstykki í höfuðið í síðustu viku. Hann slasaðist ekki alvarlega en var fluttur með sjúkrabíl undir læknis hendur.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið, en slysið varð inni í geymslu á svæði Landhelgisgæslunnar. Hann segir slysið ekki hafa verið alvarlegt.

„Þetta var örlítið óhapp,“ segir Ásgeir í samtali við Fréttablaðið. „Verið var að færa járnstykki sem féll á höfuð tveggja starfsmanna. Annar rotaðist og var fluttur á bráðamóttöku í skoðun á Landspítalanum en meiðslin reyndust ekki alvarleg.“

Hann telur slysið ekki tengjast framkvæmdum bandaríska varnarmálaráðuneytisins.

„Þetta var ekki þar sem framkvæmdirnar sjálfar eru í gangi. Þetta var inni á svæði Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu,“ staðfestir Ásgeir.

Umfangsmiklar framkvæmdir framundan

Verktakafyrirtækið ÍAV sinnir hönnun og framkvæmdum vegna flughlaða og tengdra verkefna á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Bandarísk yfirvöld fjármagna alfarið framkvæmdirnar.

Um þrjú verkefni er að ræða; Hönnun og verkframkvæmdir við stækkun á flughlaði innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli, fyrir færanlegar gistieiningar og vegna færslu á flughlaði fyrir hættulegan farm. 

uk ofangreindra framkvæmda standa nú yfir eða eru í undirbúningi framkvæmdir sem hafa verið samþykktar á öryggissvæðinu. Þar má nefna breytingar og endurbætur á flugskýli 831, byggingu þvottastöðvar fyrir flugvélar og viðhald og endurbætur á flughlöðum, akstursbrautum og ljósakerfum. Auk þess hafa verið gerðar umfangsmiklar uppfærslur á ratsjárkerfunum og kerfisbúnaði í stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.