Starfsmaður íbúðaleigufélagsins Naustavarar, dótturfélags Sjómannadagsráðs sem þjónustar meðal annars Hrafnistu, greindist með kórónaveirusmit um helgina en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Starfsmaðurinn sem um ræðir er nú kominn í einangrun en starfsmenn Naustarvarar og Sjómannadagsráðs hafa verið sendir í sóttkví og skrifstofu félagsins lokað.

Þá hafa tveir starfsmenn á stoðdeild Hrafnistu í Hafnarfirði verið sendir í sóttkví eftir að hafa hitt starfsmanninn síðastliðinn föstudag.

„Að öðru leyti hefur tilfellið ekki áhrif á starfsemi Hrafnistu þar sem viðkomandi heimsótti ekki hjúkrunardeildir heimilanna,“ segir í tilkynningu Naustavarar.

Alls greindust 30 innanlandssmit í gær og 38 í fyrradag en virk smit í samfélaginu eru nú 242 talsins. Rúmlega 2.100 manns eru nú í sóttkví.