Rudy Giuli­ani, fyrr­verandi borgar­stjóri í New York og einn af lög­fræðingum Donalds Trumps, var sleginn í bakið af starfs­manni mat­vöru­verslunar í gær.

Giuli­ani var staddur í úti­búi Shop­Ri­te á Sta­ten Is­land en hann var á ferðinni um helgina til að kynna stefnu­mál sonar síns, Andrew Giuli­ani, sem sækist eftir því að verða ríkis­stjóri New York.

Rudy sagði í sam­tali við New York Post í gær að höggið hafi komið flatt upp á hann. Hann hafi skyndi­lega fundið mikinn sárs­auka og næstum því dottið en náð með naumindum að halda sér á fótunum.

Þegar hann sneri sér við sá hann starfs­mann Shop­Ri­te í upp­námi vegna Roe v Wade-málsins, en eins og kunnugt er sneri Hæsti­réttur Banda­ríkjanna á föstu­dag við þessum sögu­fræga dómi frá 1973. Var þar með endir bundinn á tæp­lega 50 ára dóma­for­dæmi sem heimilaði þungunar­rof.

Giuli­ani segir að starfs­maðurinn hafi hreytt í hann að hann væri einn þeirra sem vildu drepa konur. „Þið haldið að þið séuð að bjarga börnum þegar þið eruð í raun að drepa konur,“ hefur hann eftir starfs­manninum.

Giuli­ani segir við New York Post að á­kvörðunin hafi ekki verið hans heldur Hæsta­réttar Banda­ríkjanna. Starfs­maðurinn, 39 ára karl­maður, verður kærður vegna málsins og gæti fengið þyngri refsingu en ella þar sem á­rásin beindist gegn ein­stak­lingi sem er eldri en 65 ára. Giuli­ani er 78 ára.

Fréttin hefur verið uppfærð. Í upprunalegri útgáfu kom fram að Giuliani hafi verið sleginn í andlitið en rétt er að hann var sleginn í bakið.