Fyrirhugað er að bólusetningar gegn Covid-19 hefjist hér á landi 29. desember næstkomandi.

Framlínustarfsmenn í heilbrigðisþjónustunni sem telur rúmlega 1.000 manns verða í fyrsta hópi og jafnframt verður hafin bólusetning hjá íbúum hjúkrunar- og öldrunardeilda sem telja 3.000–4.000 manns. Þegar önnur sending kemur til landsins verður haldið áfram með bólusetningu hjá elstu aldurshópunum.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis segir í skriflegu svari til Fréttablaðsins að líklega verði sá fyrsti til að vera bólusettur hér á landi gegn Covid-19, starfsmaður á LSH. Enn sé verið að útfæra það en það muni líklegast liggja fyrir á morgun.

Framkvæmd bólusetninga er hjá heilsugæslunni sem mun bólusetja framlínustarfsmenn og íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Einnig mun framlínufólk á Landspítala verða bólusett en Landspítalinn mun sjá um þær bólusetningar.

Lyfjastofnun Íslands veitti bóluefninu frá Pfizer og BioNTech skilyrt íslenskt markaðsleyfi í gærkvöld en leyfið byggir á markaðsleyfi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Auk þess hafa stjórnvöld samið við tvo aðra framleiðendur um bóluefni, AstraZeneca og Janssen. Þá verður samningur við Moderna undirritaður þann 31. desember næstkomandi.

Sem fyrr segir hefjast bólusetningar á þriðjudaginn í næstu viku en ekki liggur fyrir hvort að hún geti hafist þann dag á öllu landinu en það ræðst af flutningi bóluefnisins út á land, veðurskilyrðum og aðbúnaði heilsugæslunnar.

Ekki vitað hversu lengi vörnin varir

Lyfjastofnun hefur birt upplýsingar um bóluefni Pfizer og BioNTech, Comirnaty. Þar segir að bóluefnið sé ætlað fólki yfir 16 ára aldri og er það gefið tvisvar með minnst 21 dags millibili. Því er sprautað í vöðva, yfirleitt á upphandlegg.

Ekki er enn vitað hversu lengi vörnin af notkun Comirnaty varir. Fylgst verður með þeim sem bólusettir voru í rannsókninni í tvö ár til að safna frekari upplýsingum um endingu varnarinnar.

Algengustu aukaverkanir bóluefnisins sem fram komu í meginrannsókninni voru venjulega vægar eða miðlungsmiklar og gengu til baka fáum dögum eftir bólusetningu. Þeirra á meðal voru verkur og bólga á stungustað, þreyta, höfuðverkur, vöðvaverkir, liðverkir, kuldahrollur og hiti. Þessara aukaverkana varð vart hjá fleirum en 1 af hverjum 10 manns. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á vef Lyfjastofnunar.