Fjörtíu og eins árs gamall karlmaður sem starfar á leikskólanum Feggesundvej í Álaborg í Danmörku hefur verið sakaður um siðferðisbrot í starfi og fyrir vörslu á barnaklámi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Norður-Jótlandi.

Samstarfsmenn mannsins stóðu manninn að verki í gær þegar hann tók myndir af þriggja ára barni við bleyjuskipti í leikskólanum. Starfsmennirnir höfðu rakleiðis samband við yfirvöld og lögregla mætti stuttu síðar og handtók manninn.

Fundu myndir af fleiri börnum

Lögreglan rannsakar nú málið og hefur staðfest að myndir af átta öðrum börnum af sama leikskóla hafi verið í síma mannsins. Þá hafi einnig fundist barnaklám í síma hans.

„Þetta er mál sem við erum að rannsaka af mikill alvöru. Við höfum nú þegar hafið umfangsmikla rannsókn í kringum atvikið í gær," segir Carsten Straszek, lögreglustjóri hjá lögreglunni á Norður-Jótlandi í fréttatilkynningu.