Starfsmaður hjúkrunarheimilisins Grund í Reykjavík er smitaður af Covid-19, samkvæmt tilkynningu frá Grund var smitið staðfest í gær.

Starfsmaðurinn var síðast við vinnu á fimmtudag, vonast er til að ekki þurfi að grípa til neinna aðgerða á heimilinu í ljósi þess hve langt er liðið.

Lokað hefur verið fyrir heimsóknir til íbúa í austurhúsi Grundar, deildum A1, A2 og A3. Starfsfólk má ekki fara út fyrir sína deild og mun bera grímu við vinnu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að ekki væri vitað með áhrif bólusetningar á viðkvæma hópa.

„Svo vitum við ekki hversu vel bólusetningin verndar viðkvæma hópa. Munu þeir fá einhverja vernd af bóluefninu? Við höfum ekki góðar rannsóknir sem segja af eða á. Þessar rannsóknir sem liggja fyrir um 90 prósent vernd, þá er það aðallega hjá hraustu fólki,“ sagði Þórólfur.