Starfsmaður á frístundaheimili í Hafnarfirði er grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn tveimur nemendum í 1. bekk í síðustu viku.

Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann er sagður starfa í Hraunseli, frístundaheimili fyrir börn í Hraunvallaskóla á aldrinum 6-9 ára.

Maðurinn hefur verið leystur frá störfum á meðan rannsókn málsins stendur yfir og neitar alfarið sök.

Fram hefur komið að lögreglu hafi á þriðjudag borist tilkynning frá Barnaspítala Hringsins um hugsanlegt kynferðisbrot mannsins gagnvart barni.

Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að um tvö börn væri að ræða og herma heimildir Stöðvar 2 að þau séu á aldrinum 6 til 7 ára.

Héraðsdómur Reykjaness féllst á fimm daga gæsluvarðhald yfir manninum.

Landsréttur felldi úrskurðinn úr gildi á föstudag og taldi að lögregla hefði ekki sýnt fram á að rannsóknarhagsmunir krefðust þess að hann sætti gæsluvarðhaldi áfram.

Manninum verður sleppt úr gæsluvarðhaldi á morgun, þriðjudaginn 26. maí. Kröfu um að kærði sæti einangrun var hafnað.