Starfs­maður Land­helgis­gæslunnar sem vinnur í rat­sjár­stöð, sat fastur á Gunn­ólfs­víkur­fjalli í tólf sólar­hringa í desember síðast­liðnum, þegar sögu­lega ó­veðrið í desember gekk yfir. Frá þessu er greint í Face­book færslu Land­helgis­gæslunnar.

Þar er greint frá því að að­stæður við rat­sjár-og fjar­skipta­stöðvar At­lants­hafs­banda­lagsins, sem Land­helgis­gæslan rekur, geti jafnan verið krefjandi. Þær enda mikil­vægur hlekkur í loft­varnar­kerfi NATO og gegna auk þess veiga­miklu hlut­verki fyrir flug­leið­sögu og öryggis­fjar­skipti landsins.

Tvær þeirra eru stað­settar á fjall­stoppum Gunn­ólfs­víkur­fjalls og Bola­fjalls. Þrátt fyrir það sækir fólk þangað vinnu dag­lega og sú staða getur komið upp að fólk festist í vinnunni vegna veðurs, stundum svo dögum skiptir.

Þar sem hver lægðin hefur gengið yfir landið á undan­förnum vikum hafa að­stæður í rat­sjár­stöðvunum tveimur verið afar krefjandi. Til dæmis var starfs­maður Land­helgis­gæslunnar fastur á Gunn­ólfs­víkur­fjalli í 12 sólar­hringa þegar sögu­lega ó­veðrið í desember gekk yfir.

Að­fara­nótt sunnu­dags stóðu starfs­menn Land­helgis­gæslunnar vaktina á Bola­fjalli en þá náðu vind­hviðurnar 70 metrum á sekúndu. Starfs­fólk Land­helgis­gæslunnar ekki ó­vant slíku.

Því sé alveg ó­hætt að segja að starfs­stöðvarnar á fjalls­tindunum séu nokkuð frá­brugðnar því sem gengur og gerist á hefð­bundnum vinnu­stöðum. Með­fylgjandi mynd sýnir veður­mælingarnar á Bola­fjalli frá því um helgina.