Hinn 37 ára gamli Adamo Canto, starfsmaður veitingaþjónustu Buckingham hallar, játaði sök í þremur þjófnaðarmálum í Westminister rétti í dag. Brotin voru framin innan hallarveggjanna milli 11. nóvember árið 2019 og 7. ágúst síðastliðinn. Þetta kemur fram í frétt BBC.
Metið á tugi milljóna
Starfslýsing Canto breyttist umtalsvert þegar Covid-19 faraldurinn skall á og féll það í hans hlut að sinna meiri þrifum en áður. Það hlutverk veitti honum aukin aðgang að skrifstofum og öðrum svæðum sem hann hefði annars ekki mátt fara inn á, útskýrði rétturinn.
Lögreglan fann „umfangsmikið magn“ af stolnum munum í herbergi Canto í höllinni. Munirnir eru metnir á milli tíu til hundrað þúsund punda en voru til sölu á eBay á mun lægra verði. Alls voru 37 munir skráðir til sölu á eBay á aðgangi Canto, sem hefði eignast alls 7.741 pund við söluna á þeim.
Fjölbreyttir hlutir
Einn þeirra muna var ríkismyndaalbúm með myndum af heimsókn Donald Trump til Bretlandseyja. Myndaalbúmið er metið á 1.500 pund eða tæplega 270 þúsund íslenskra króna.
Canto hafði einnig með sér áritaðar myndir af hertogahjónunum af Sussex, Meghan og Harry og hertogahjónunum af Cambridge, William og Kate. Þá voru um 77 hlutir voru teknir úr gjafavöruversluninni við drottningar listasafnið.
Einnig var stolið frá mörgum öðrum stöðum, líkt og starfsmannaskápum, geymslu hertogans af York og skrifstofum.