Hinn 37 ára gamli Ada­mo Canto, starfs­maður veitinga­þjónustu Bucking­ham hallar, játaði sök í þremur þjófnaðar­málum í West­mini­ster rétti í dag. Brotin voru framin innan hallar­veggjanna milli 11. nóvember árið 2019 og 7. ágúst síðast­liðinn. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Metið á tugi milljóna

Starfs­lýsing Canto breyttist um­tals­vert þegar Co­vid-19 far­aldurinn skall á og féll það í hans hlut að sinna meiri þrifum en áður. Það hlut­verk veitti honum aukin að­gang að skrif­stofum og öðrum svæðum sem hann hefði annars ekki mátt fara inn á, út­skýrði rétturinn.

Lög­reglan fann „um­fangs­mikið magn“ af stolnum munum í her­bergi Canto í höllinni. Munirnir eru metnir á milli tíu til hundrað þúsund punda en voru til sölu á eBay á mun lægra verði. Alls voru 37 munir skráðir til sölu á eBay á að­gangi Canto, sem hefði eignast alls 7.741 pund við söluna á þeim.

Fjöl­breyttir hlutir

Einn þeirra muna var ríkis­mynda­albúm með myndum af heim­sókn Donald Trump til Bret­lands­eyja. Mynda­albúmið er metið á 1.500 pund eða tæp­lega 270 þúsund ís­lenskra króna.

Canto hafði einnig með sér á­ritaðar myndir af her­toga­hjónunum af Sus­sex, Meg­han og Harry og her­toga­hjónunum af Cam­brid­ge, Willi­am og Kate. Þá voru um 77 hlutir voru teknir úr gjafa­vöru­versluninni við drottningar lista­safnið.

Einnig var stolið frá mörgum öðrum stöðum, líkt og starfs­manna­skápum, geymslu her­togans af York og skrif­stofum.