Starfs­maður á Landa­koti greindist um helgina smitaður af CO­VID-19. Þetta kemur fram í til­kynningu á vef Land­spítalans.

Þar segir að starfs­maðurinn hafi verið við störf í vikunni og að strax á laugar­dags­morgni hafi hafist um­fangs­mikil rakning og sýna­taka sam­kvæmt verk­lagi.

Allir sjúk­lingar deildarinnar skiluðu sýni og voru þau öll nei­kvæð. Þeir skila nýju sýni í dag, mánu­dag 23. ágúst 2021. Ein af um­fangs­mestu hóp­sýkingum far­aldursins kom upp í októ­ber síðast­liðnum á Landa­koti, fyrir tíma bólu­setningar. Rekja má sau­tján and­lát til um­rædds hóp­smits.

Í tilkynningu spítalans nú kemur fram að þeir fimm sjúk­lingar sem við­komandi starfsmaður sinnti voru settir í sótt­kví sem lýkur með nei­kvæðu sýni á sjöunda degi - fimmtu­dag.

Allir starfs­menn deildarinnar skiluðu sýni um helgina og nú í dag og hafa þau hingað til öll reynst nei­kvæð. Hluti starfs­manna deildarinnar er í vinnu­sótt­kví C og munu þeir skila sýni á 4. og 7. degi.

Einn sjúk­lingur sem var heima í helgar­leyfi var settur í sótt­kví en aðrir sem höfðu út­skrifast þörfnuðust ekki sótt­kvíar.Deildin er lokuð fyrir inn­lagnir og ekki verða flutningar á aðrar stofnanir fyrr en allri sótt­kví hefur verið af­létt.