Starfsmaður á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ hefur greinst með COVID-19. Hafði sá mætt stuttlega til vinnu áður en hann greindist.

Málið kom upp í fyrradag og hefur deildin þar sem starfsmaðurinn starfar verið einangruð og sett í sóttkví.

Þetta staðfestir Sigurður Rúnar Sigurjónsson, forstjóri Eirar sem rekur heimilið, í samtali við Fréttablaðið en Vísir greindi fyrst frá.

Starfsmaðurinn var búinn að vera í vinnunni í nokkrar klukkustundir þegar í ljós kom að maki hans var smitaður af COVID-19. Var hann þá sendur heim og reyndist síðar einnig vera sýktur.

Allir á tánum

Að sögn Sigurðar var strax gripið var til viðeigandi ráðstafana á hjúkrunarheimilinu í samræmi við viðbragðsáætlanir. Lítið sé gleymt frá fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins og verklag sé uppfært reglulega.

„Menn eru náttúrulega á tánum, það getur því miður komið upp hvenær og hvar sem er að starfsmaður greinist með veiruna. Ef það er einhver minnsti grunur þá erum við að senda fólk í skimun til að vera alveg viss.“

Vísir hefur eftir Kristínu Högnadóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunarsviðs Eirar, að tíu manns búi á umræddri deild og að starfsmaðurinn hafi einungis sinnt örfáum þeirra áður en hann fór heim.

Þá hafi í gær verið tekin ákvörðun um að loka öllu heimilinu til að minnka ágang á meðan óvssa ríki um ástandið.

Fréttin hefur verið uppfærð.