„Það voru ekki gerðir starfs­loka­samningar, hvorki við Sól­veigu né Viðar, enda sögðu þau sjálf upp,“ segir Ólöf Helga Adolfs­dóttir, vara­for­maður Eflingar, um skil­mála starfs­loka Sól­veigar Önnu Jóns­dóttir, fyrr­verandi formanns og Viðars Þor­steins­sonar, fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóra Eflingar.

Um­ræða hefur orðið um starfs­loka­samninga hjá stéttar­fé­laginu. Spurð hve marga mánuði for­ystu­fólkið fá greidda segist vara­for­maður Eflingar ekki geta rætt hvort um sé að ræða þriggja mánaða greiddan upp­sagnar­frest eða lengra tíma­bil hjá Sól­veigu og Viðari. Það sé trúnaðar­mál. „Starfs­lok þeirra fóru fram í sam­ræmi við ráðningar­samninga,“ segir hún.

Ólöf segir að þessi mál séu ó­tengd því hvort Sól­veig bjóði sig aftur fram til for­ystu í Eflingu. Fyrst sagði Sól­veig Anna af sér sem for­maður og Viðar sagði upp sem fram­kvæmda­stjóri degi síðar.

Spurð um væringarnar undan­farið segist Ólöf Helga ekki vilja leggja mat á það sem liðið er. Megin­verk­efni Eflingar sé að ein­beita sér að því að gæta réttinda fé­lags­manna.

Ólöf stendur sjálf í deilu vegna upp­sagnar. Hún er hlað­konan sem gegndi trúnaðar­mennsku fyrir Ice­landair á Reykja­víkur­flug­velli. Telur Efling að upp­sögn hennar í sumar sé ó­lög­mæt. Mál Ólafar er fyrir Fé­lags­dómi.