Starfs­hópur á vegum inn­viða­ráð­herra telur að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir lokun Reykja­nes­brautarinnar í ó­veðri við lok desem­ber­mánaðar en að betur hefði mátt standa að snjó­mokstri. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu starfs­hópsins en hann var skipaður af ráð­herra í kjöl­far ó­veðurs og mikillar snjó­komu 19. og 20. desember á síðasta ári. Þúsundir voru stranda­glópar á Kefla­víkur­flug­velli og þurfti að af­lýsa fjölda fluga þegar loka þurfti Reykja­nes­brautinni í um tvo daga.

Starfs­hópurinn leggur til sex til­lögur en meðal þess sem lagt er til er að gerðar verði breytingar á við­bragðs­á­ætlun Vega­gerðarinnar, að Vega­gerðin fái skýrari heimild frá ráð­herra til að fjar­lægja bíla sem hindra snjó­mokstur og að, í sam­starfi við lög­reglu og al­manna­varnir, að verk­ferlar verði bættir og að á­ætlun verði gert um það hvaða tækja­búnaður sé nauð­syn­legur við þær að­stæður sem mynduðust á Reykja­nes­brautinni.

„Til­lögur starfs­hópsins eru gagn­legar og munu nýtast þegar í stað við að gera nauð­syn­legar breytingar á við­bragðs­á­ætlun og skipu­lagi sam­skipta. Þá hyggst ég virkja heimild um­ferðar­laga sem veitir Vega­gerðinni heimild til að láta færa öku­tæki sem valda truflunum við snjó­mokstur. Í skýrslunni er farið vel yfir at­burða­rásina og full­trúar Vega­gerðarinnar og lög­reglu­yfir­valda hafa lagt sitt að mörkum til að finna leiðir til að bæta við­bragð við að­stæður sem þessar. Með sam­vinnu að leiðar­ljósi er það verk­efni okkar að lág­marka eins kostur er þau á­hrif sem vá­lynd veður hafa ó­hjá­kvæmi­lega á sam­göngur um há­vetur,“ segir Sigurður Ingi Jóhanns­son, inn­viða­ráð­herra, í til­kynningu.

Þurfi að forgangsraða mokstrinum

Í skýrslunni segir að starfs­hópurinn telji að ekki hefði verið hægt að koma al­ger­lega í veg fyrir lokun Reykja­nes­brautarinnar, þegar horft væri til veður­að­stæðna á um­ræddu tíma­bili, og lög­bundinna hlut­verka Vega­gerðarinnar og lög­reglu er snúa að öryggi veg­far­enda.

Starfs­hópurinn kemst á hinn bóginn að þeirri niður­stöðu að þótt Vega­gerðin hafi full­nýtt mann­skap og tæki til snjó­moksturs á tíma­bilinu hefði mátt betur átt standa að snjó­mokstri á Reykja­nes­braut og að mögu­lega hefði verið hægt að opna Reykja­nes­braut fyrr á mánu­deginum ef sér­stak­lega hefði verið aug­lýst að leiðir til Grinda­víkur og Voga væru ó­færar þar sem öll á­hersla hafði tíma­bundið verið lögð á að halda leiðinni til flug­stöðvarinnar opinni á kostnað moksturs leiða til að­liggjandi byggðar­laga.

Þá eru í skýrslunni til­tekin at­riði um að endur­meta þurfi stað­setningu lokunar­pósta, skil­greina eigi skil­virkara sam­starf við lög­reglu og kanna eigi hvort skil­greina þurfi vara­leiðir til að halda opnum þrátt fyrir lokun Reykja­nes­brautar. Þá telur hópurinn mikil­vægt að halda því til haga að um leið og Reykja­nes­braut þjónar stærsta al­þjóða­flug­velli landsins þjóni hún einnig byggðar­lögum sem tengjast brautinni. Á sama tíma og barist hafi verið við að halda Reykja­nes­brautinni opinni voru vegir að og í byggðar­lögum við brautina ó­færir.

Þá bendir starfs­hópurinn á að þegar veður­að­stæður væru með þessum hætti væri þörf á að for­gangs­raða snjó­mokstri og að það þurfi að skýra hversu mikil á­hersla á að vera á að halda flug­stöðinni opinni, jafn­vel á kostnað annarra verk­efna en sem dæmi þá voru sjúkra­bílar og lög­regla kölluð til í hús sem ó­fært var að og þurftu við­bragðs­aðilar að nýta sér að­stoð snjó­bíls björgunar-sveitar til að sinna út­köllum.

Skýrsluna er hægt að kynna sér hér á vef ráðu­neytisins.