Starfshópur á vegum innviðaráðherra telur að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir lokun Reykjanesbrautarinnar í óveðri við lok desembermánaðar en að betur hefði mátt standa að snjómokstri. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu starfshópsins en hann var skipaður af ráðherra í kjölfar óveðurs og mikillar snjókomu 19. og 20. desember á síðasta ári. Þúsundir voru strandaglópar á Keflavíkurflugvelli og þurfti að aflýsa fjölda fluga þegar loka þurfti Reykjanesbrautinni í um tvo daga.
Starfshópurinn leggur til sex tillögur en meðal þess sem lagt er til er að gerðar verði breytingar á viðbragðsáætlun Vegagerðarinnar, að Vegagerðin fái skýrari heimild frá ráðherra til að fjarlægja bíla sem hindra snjómokstur og að, í samstarfi við lögreglu og almannavarnir, að verkferlar verði bættir og að áætlun verði gert um það hvaða tækjabúnaður sé nauðsynlegur við þær aðstæður sem mynduðust á Reykjanesbrautinni.
„Tillögur starfshópsins eru gagnlegar og munu nýtast þegar í stað við að gera nauðsynlegar breytingar á viðbragðsáætlun og skipulagi samskipta. Þá hyggst ég virkja heimild umferðarlaga sem veitir Vegagerðinni heimild til að láta færa ökutæki sem valda truflunum við snjómokstur. Í skýrslunni er farið vel yfir atburðarásina og fulltrúar Vegagerðarinnar og lögregluyfirvalda hafa lagt sitt að mörkum til að finna leiðir til að bæta viðbragð við aðstæður sem þessar. Með samvinnu að leiðarljósi er það verkefni okkar að lágmarka eins kostur er þau áhrif sem válynd veður hafa óhjákvæmilega á samgöngur um hávetur,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, í tilkynningu.
Þurfi að forgangsraða mokstrinum
Í skýrslunni segir að starfshópurinn telji að ekki hefði verið hægt að koma algerlega í veg fyrir lokun Reykjanesbrautarinnar, þegar horft væri til veðuraðstæðna á umræddu tímabili, og lögbundinna hlutverka Vegagerðarinnar og lögreglu er snúa að öryggi vegfarenda.
Starfshópurinn kemst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að þótt Vegagerðin hafi fullnýtt mannskap og tæki til snjómoksturs á tímabilinu hefði mátt betur átt standa að snjómokstri á Reykjanesbraut og að mögulega hefði verið hægt að opna Reykjanesbraut fyrr á mánudeginum ef sérstaklega hefði verið auglýst að leiðir til Grindavíkur og Voga væru ófærar þar sem öll áhersla hafði tímabundið verið lögð á að halda leiðinni til flugstöðvarinnar opinni á kostnað moksturs leiða til aðliggjandi byggðarlaga.
Þá eru í skýrslunni tiltekin atriði um að endurmeta þurfi staðsetningu lokunarpósta, skilgreina eigi skilvirkara samstarf við lögreglu og kanna eigi hvort skilgreina þurfi varaleiðir til að halda opnum þrátt fyrir lokun Reykjanesbrautar. Þá telur hópurinn mikilvægt að halda því til haga að um leið og Reykjanesbraut þjónar stærsta alþjóðaflugvelli landsins þjóni hún einnig byggðarlögum sem tengjast brautinni. Á sama tíma og barist hafi verið við að halda Reykjanesbrautinni opinni voru vegir að og í byggðarlögum við brautina ófærir.
Þá bendir starfshópurinn á að þegar veðuraðstæður væru með þessum hætti væri þörf á að forgangsraða snjómokstri og að það þurfi að skýra hversu mikil áhersla á að vera á að halda flugstöðinni opinni, jafnvel á kostnað annarra verkefna en sem dæmi þá voru sjúkrabílar og lögregla kölluð til í hús sem ófært var að og þurftu viðbragðsaðilar að nýta sér aðstoð snjóbíls björgunar-sveitar til að sinna útköllum.