Starfsgreinasamband Íslands (SGS) segir Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) greinilega vera að reyna að kúga sig til uppgjafar í kjaradeilunum sem samböndin eiga í með því að neita félagsmönnum SGS um eingreiðslu sem félagsmenn annarra stéttarfélaga fá. SGS er tilbúið í hörð átök.

Séu að reyna að kúga sig til uppgjafar

Þetta kemur fram í tilkynningu sem SGS sendi frá sér í dag en þar eru vinnubrögð SÍS fordæmd. Þannig hefur verið greint frá pósti sem SÍS sendi á sveitarfélög landsins þar sem þeim var bannað að greiða umrædda eingreiðslu til félagsmanna SGS. Þetta segir SGS vera einhliða ákvörðun SÍS og hún hafi verið tekin til að kúga sambandið til uppgjafar.

Þannig er ferill málsins reifaður í tilkynningunni. Kjaradeilan sé í hörðum henni hafi verið vísað til ríkissáttasemjara vegna þess að Samninganefnd sveitarfélaganna hafi krafist þess að SGS félli frá kröfum frá fyrirliggjandi samkomulagi um jöfnun lífeyrisréttinda og að það yrði ekki rætt í kjaraviðræðunum.

„Vegna þess hversu samningaviðræður við sveitarfélög og ríki hafa dregist náðist samkomulag, þ.e. við aðra samningsaðila en SGS, að starfsfólk með lausa kjarasamninga fengi eingreiðslu að upphæð 105.000 kr. sem greiðist út 1. ágúst sem innágreiðsla fyrir nýjan kjarasamning,“ er svo útskýrt í tilkynningunni.

Hætta á hörðum átökum

Þá segir að SÍS hafi borið það fyrir sig að eingreiðslan þurfi að tengjast tæknilegum atriðum um endurskoðun viðræðuáætlunar „sem á sér enga lagastoð og er hreinn fyrirsláttur“. „Af sama meiði eru yfirlýsingar af hálfu SÍS um að það sé á einhvern hátt óheimilt að ræða stöðuna og deilumálin í fjölmiðlum. Það bendir til þess að þau vita að málatilbúnaður þeirra og rökstuðningur er afar veikur,“ segir þá í tilkynningunni.

SGS hefur þá boðað til sérstaks formannafundar þann 8. ágúst til að ræða stöðuna og ákveða næstu skref en aðilarnir eiga fund með ríkissáttasemjara þann 21. ágúst. Þá krefst sambandið þess að SÍS virði störf og framlag félagsmanna sambandsins í þágu sveitarfélaganna. „Haldi Samband íslenskra sveitarfélaga þessari afstöðu til streitu er hætta á að það þýði hörð átök,“ segir þá í lok tilkynningarinnar.