Árið 2011 var fjárhagsvandi Orkuveitu Reykjavíkur ærinn. Tekist var á við vandamálið með metnaðarfullri hagræðingar­áætlun til fimm ára sem gekk undir nafninu Planið. Meðal annars setti fyrirtækið sér það markmið að fækka starfsmönnum um 90. Það tókst á aðeins rúmu ári þegar starfsmönnum fækkaði úr 517 í 420 árið 2013.

Síðan þá hefur þróunin snúist við og í dag eru starfsmenn samstæðunnar 553. Það er fjölgun um 32 prósent frá árinu 2013.

„Eðli báknsins virðist vera að blása út, sem er áhyggjuefni fyrir skattgreiðendur. Höfuðborgarbúar þurftu að sætta sig við auknar álögur til þess að snúa við rekstri OR á sínum tíma. Við höfum talað fyrir því að bætt rekstrarniðurstaða skili sér í lægri gjöldum en það hefur ekki gengið eftir,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni.

Í svari Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa OR, kemur fram að flestum fjárfestingum samstæðunnar hafi verið frestað á árunum 2010-2012. Starfsmannafjöldi var lagaður að því en vitað var að þeim myndi fjölga þegar samfélagið rétti úr kútnum. Hafa beri í huga að beint samhengi sé á milli starfsmannafjölda OR og fjárfestinga fyrirtækisins auk umsvifa í samfélaginu almennt. „Samhengið þarna á milli er beint vegna þess að okkur ber skylda til að tengja nýtt húsnæði og ný hverfi veitukerfunum þegar eftir því er kallað,“ segir Eiríkur.

Að hans sögn virðist heilt yfir vera að hægja á og þess vegna sé starfsfólki þegar farið að fækka hjá samstæðunni.

Rétt sé þó að benda á að langstærstur hluti fjárfestinga OR, hvort sem um er að ræða nýfjárfestingu eða viðhald, sé af slíkri stærðargráðu að verkin eru boðin út og unnin af verktakafyrirtækjum. Verkefnunum sé þó gjarnan verkstýrt af starfsmönnum OR og það skýri fjölgun fastra starfsmanna á uppgangstímum.