Hröð aukning hefur verið í Covid-19 smitum í samfélaginu undanfarið og eru starfsmenn Landspítalans ekki undanskildir.

Nú eru 67 starfsmenn Landspítala í einangrun vegna Covid-19 en þeim hefur fækkað frá því í síðustu viku samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum.

Síðastliðinn fimmtudag voru 95 starfsmenn spítalans í einangrun sem var þá mesti fjöldi smitaðra starfsmanna frá 28. mars síðastliðnum.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að Covid-19 smitum hafi fjölgað frá byrjun júní og að aukningin sé hröð.

Samkvæmt nýjustu tölum spítalans liggja 44 einstaklingar á sjúkrahúsi með eða vegna Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu.

Að sögn Kamillu eru innlagnir algengastar hjá eldra fólki en það sé þó ekki eini hópurinn sem þurfi á innlögn að halda. Hún hvetur fólk til að fara varlega og fara í Covid-19 próf finni það fyrir einkennum.