„Þegar fólk er að tala um að það sé orðið þreytt á ástandinu þá skil ég það mjög vel en Guð minn góður, hvernig heldur þú að það sé að vinna í þessu umhverfi alla daga hérna í Covid-galla,“ spyr Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir hjá Landspítalanum í samtali við Fréttablaðið.
Tómas birti færslu á Facebook-síðu sinni mánudagskvöld þar sem hann setur út á umfjöllun um ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar sem birtist í leiðara Morgunblaðsins á mánudagsmorgun. Þar er fjallað um jómfrúrræðu Arnars Þórs Jónssonar, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, á þingi.
Í leiðaranum er meðal annars haft eftir Arnari að sóttvarnaraðgerðir sem eru nú við lýði hafi verið réttlætanlegar í byrjun faraldursins en séu það mögulega ekki lengur. Hann höfðar nú mál fyrir hönd fimm einstaklinga þar sem er látið reyna á lögmæti einangrunar fyrir smitaða einstaklinga sem hafa engin einkenni.
Tómas segir skrifin vera eins og blaut tuska í andlitið á öllum þeim sem eru að vinna á framlínunni. Fárveiku fólki fjölgi á gjörgæslunni og á smitsjúkdómadeild þrátt fyrir að því sé oft básúnað að nýjasta afbrigðið beri með sér vægari einkenni.
„Þetta eru sex sinnum fleiri sem eru að sýkjast og núna er þetta bara orðið eins og bál. Kerfið hérna innan hús var mjög þjakað fyrir jól og það er búið að vera klikkað mikið að gera yfir jólin,“ segir Tómas.
Álag eykst á þeim læknum sem eftir eru
Í pistlinum segir Tómas að starfsfólk spítalans sé að veikjast í hrönnum og að mörg teymi og deildir séu að sligast undan álagi. „Sjálfur hef ég verið í vinnunni sleitulaust í 10 daga og man ekki annað eins á mínum 30 árum sem læknir,“ skrifar Tómas í pistlinum.
Einhver dæmi eru um að fólk brenni út vegna álags á spítalanum, að sögn Tómasar, en það sé mikið áhyggjuefni. „Þú getur ekkert keyrt fólk á svona hraða endalaust,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.
Tómas segir mannauðinn vera það mikilvægasta í svona kerfi og að það geti tekið langan tíma að bæta upp fyrir starfsmannamissi. „Þetta er kannski það sem við óttumst mest núna, ef þetta dregst á langinn, að fólk bara gefist upp,“ segir hann.
Læknar eru margir hverjir að neyðast til að taka sér frí vegna veikinda, hvort sem er Covid-tengdum eða ekki, sem eykur enn álagið á þeim sem eftir verða. „Þannig að það er alveg skiljanlegt að fólk vilji bremsa þetta,“ segir Tómas. „Þannig að það gerist ekki bara í næstu viku að það sé enginn hjartaskurðlæknir eða heilaskurðlæknir eftir standandi.“
Landspítalinn tilkynnti í kvöld að hjartadeildin skyldi lokuð í kjölfar hópsýkingar þar sem sjö sjúklingar greindust smitaðir. Þegar sú deild er lokuð þarf að leggja þá sjúklinga sem ekki eru smitaðir inn á aðrar deildir spítalans og auka enn álagið á þeim.
„Áðan kom síðan upp hópsmit á hjartadeild sem er stærsta bráðadeild sjúkrahússins. Sjúklingar þeirrar deildar mega illa við Covid-sýkingu ofan á alvarlegan hjartasjúkdóm - og því skiljanlegt að skynsamur sóttvarnalæknir reyni að bremsa faraldurinn með viðurkenndum aðferðum,“ skrifar Tómas. Hann bendir einnig á í samtali við blaðamann að jólin séu annasamasti tíminn hjá hjartadeildum.
Frelsi ekki það sama og frelsi
Tómas segir í pistli sínum að mörgum þyki erfitt að skilja aðgerðir sóttvarnalæknis og tali um brot á frelsi einstaklinga. „Síðan hvenær getur frelsi einstaklings gengið út yfir frelsi annarra? Það eru jú mannréttindi að sýkjast ekki af sjúkdómi sem getur verið banvænn - sérstaklega ef maður er veikur fyrir,“ skrifar Tómas.
Búist er við því að Héraðsdómur kveði á þriðjudag, 28. desember, upp dóm sinn í máli þeirra fimm einkennalausra einstaklinga sem voru látnir sæta einangrun í kjölfar jákvæðra PCR-prófa. Tómas telur það ekki vera góð hugmynd að fólk fái að ráða því sjálft hvenær það eigi að sæta einangrun.
Þjóðfélagið snýst ekki bara um þá sem eru sterkastir
„Maður getur ekki treyst á að fólk sýni dómgreind þar,“ segir Tómas í samtali við Fréttablaðið. „Þess vegna erum við með bílbelti, þess vegna erum við með sektir fyrir hraðakstur og allt þetta. Við setjum ákveðinn ramma utan um ákveðna hluti í samfélaginu.“
Tómas segir að það geti verið erfitt fyrir lækna að meta það hvort einstaklingar séu hraustir og fullkomlega einkennalausir eða ekki, hvað þá fyrir almenning.
„Ég skil alveg þessa umræðu um frelsi en hún miðast rosa mikið við þessa sterku í þjóðfélaginu, sem eru hraustir og í góðri vinnu,“ segir Tómas. „Þjóðfélagið snýst ekki bara um þá sem eru sterkastir. Mitt starf felst í því að hjálpa þeim sem eru veikir og eiga undir högg að sækja og þeir eru bara ótrúlega margir.“