„Þetta er bara of­beldi,“ segir Sonja Lind Estra­jher Ey­glóar­dóttir, starfs­maður þing­flokks Fram­sóknar­flokksins, um sím­töl sem starfs­mönnum stjórn­mála­flokkanna hefur verið að berast á næturna undan­farna daga. Hún segir um að ræða þrjár konur í sam­tali við blaðið.

Sonja greindi fyrst frá málinu á Face­book.„Það er mjög á­huga­vert að upp­lifa núna þegar ég er að vinna sem starfs­maður þing­flokks Fram­sóknar á Al­þingi að fá sím­töl á nóttunni sem vekja upp börnin mín, þau eiga að fá að sofa í friði óháð við hvað ég starfa. Sím­tal frá ein­stak­lingi sem nærist á hatri og illsku í garð fólks sem hefur aðrar skoðanir en það sjálft,“ skrifar Sonja.

Hún segir þetta ekki pólitík heldur sé slík hegðun drifin á­fram af öðrum hvötum. „Sú per­sóna sem hringdi í mig í nótt er í hljóm­sveit og gefur sig út fyrir að vera tals­maður þess sem er með betra sið­ferði en aðrir. Viljum við búa í sam­fé­lagi þar sem hatur er ofar um­burðar­lyndi? Hvað er að frétta?“

Þvert á flokka

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Sonja að hún sé ekki sú eina sem hafi fengið slík sím­töl. Þau hafi borist starfs­fólki flokka þvert á hið pólitíska lit­róf í Sjálf­stæðis­flokki, Mið­flokki, Flokki fólksins, Sam­fylkingunni og Við­reisn.

„Þetta eru ekki pólitíkusarnir sem eru að fá þessi sím­töl heldur starfs­fólkið,“ segir Sonja. Sonju barst tvö mis­munandi sím­töl úr tveimur mis­munandi númerum.

„Maður er til­búinn til að taka alls­konar sím­töl þegar maður er í vinnunni en þegar maður slekkur ljósin og fer að sofa heima hjá sér heldur maður að maður fái frið fyrir sig og sína fjöl­skyldu. Þetta er bara árás á frið­helgi einka­lífsins.“

Hún segir það ekki skipta máli hvar fólk sé statt pólitískt. „Maður gerir ekki svona, þetta er bara of­beldi,“ segir Sonja.

Það líti út fyrir að um sé að ræða skipu­lagðan verknað. „Og hver er til­gangurinn með þessu?“ segir Sonja gáttuð. Um sé að ræða þrjú númer og að því er virðist þrjár konur.

Viðkomandi grét í símann

Sonja segir við­komandi hafa grátið í símann og sagst ekki vita hvað hún ætti að kjósa. Sonja segir um að ræða afar ó­þægi­lega lífs­reynslu.

„Það er búið að vera að rugla ýmis­legt fram og til baka í fólki. Svo var talað við annan starfs­mann og honum flett upp á Face­book og sagt við hann hvað hann væri sætur og hvort að allir strákarnir í Fram­sókn væru líka sætir. Hvurs­lags á­reiti er það, skiptir ein­hverju máli hvernig fólk lítur út?“

Sonja segist fegin að búa í Borgar­nesi „Þar sem enginn er að fara að keyra og banka upp á hjá mér, ef ég byggi hérna í Reykja­vík þá myndi ég hugsa með mér; er þetta lið að fara að koma heim til mín líka og trufla börnin mín?“

Hún segir starfs­fólk flokkanna eiga skilið frið. „Það er ekki eins og ég sé að gefa mig út fyrir að vera ein­hver pólitíkus, ég er bara starfs­maður,“ segir hún.