Vantraustyfirlýsingu SÁÁ hefur hvorki verið svarað af formanni né framkvæmdastjórn að sögn starfsfólks meðferðarsviðs SÁÁ. Starfsfólki finnst mikil vanvirðing sýnd með slíkri hunsun og ítreka þau fyrri vantraustsyfirlýsingu og lýsa yfir miklum áhyggjum og að margir íhugi uppsögn.

Mikil ólga hefur verið innan veggja SÁÁ eftir að framkvæmdastjórn og formaður SÁÁ, Arnþór Jónsson, ákváðu á fundi sínum þann 25. mars síðastliðinn að segja upp sál­fræðingum og ráð­gjöfum á með­ferðar­sviði sam­takanna.

Stjórnar­með­limir SÁÁ lögðu í kjölfarið fram van­trausts­til­lögu gegn Arn­þóri á fundi aðal­stjórnarinnar þann 28. mars síðastliðinn. Tillagan var felld af framkvæmdastjórn daginn eftir, þann 29. mars.

Starfsfólkið sendi í gær yfirlýsingu á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, Ölmu D. Möller landlækni og Maríu Heimisdóttir, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands þar sem þau lýstu yfir áhyggjum af stöðunni.

Framkvæmdastjórn SÁÁ hélt fjarfund þann 1. apríl þar sem Valgerður Rúnarsdóttir, fráfarandi forstjóri Vogs, spurði hvort stjórnin gerði sér grein fyrir þeim trúnaðar- og traustbresti sem kominn væri á milli starfsmanna og framkvæmdastjórnar og stjórnarformanns.

Starfsfólk gerði kröfu um að formaður og framkvæmdastjórn víki og að uppsagnir starfsmanna yrðu afturkallaðar.

Krefjast þess að Arnþór stígi til hliðar

Þrjár vantraustyfirlýsingar ásamt uppsagnarbréfi forstjóra og þriggja framkvæmdastjórnarmanna voru lagðar fram á fundinum. Lagt var til að Arnþór Jónsson, formaður samtakanna, myndi stíga til hliðar og að stjórn og forstjóri komi sér saman um nýjan stjórnarformann.

Starfsfólk vill tryggja að að formaður eða framkvæmdastjórn taki ekki ákvarðanir um fagleg málefni heilbrigðisþjónustunnar án samráðs. Einnig er krafist þess að gerð verði skil milli ákvarðana um heilbrigðisstarfssemina og framkvæmdarstjórnar félagasamtakanna.

Heilbrigðisráðherra setji á starfsstjórn

Valgerður segir traust ríkisins til SÁÁ í hættu stígi framkvæmdastjórn ekki fram með vilja til að leita sátta við starfsfólk með nýjum stjórnarformanni.

Starfsfólk hefur lagt til að framkvæmdastjórn biðji heilbrigðisráðherra að hlutast til um að setja á starfsstjórn yfir heilbrigðisstarfseminni. Áfram yrði reksturinn undir SÁÁ.

Um leið verði heilbrigðisráðuneytið að tryggja rekstrarfé til þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er (með nýjum samningum) og að unnið verði að skipuriti og áætlunum um þjónustu heilbrigðisþjónustuhlutans á næstu 6 mánuðum.

Valgerður tók fram í yfirlýsingu sinni að samkvæmt lögum ætti að vera framkvæmdastjórn yfir heilbrigðisstofnuninni, með forstjóra, framkvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra lækninga og fleirum eftir atvikum, og fagráð með fulltrúum úr öllum fagstéttum sem vinna við stofnunina, sem eru forstjóra til ráðgjafar.

Þá sé ljóst að starfsfólkið taki þátt í að bregðast við kórónaveirufaraldrinum og samþykki 20 prósent skerðingu á starfshlutfalli. Mikil ólga sé og margir geti illa skilið á milli aðgerðanna tveggja sem samþykktar voru á framkvæmdastjórn þann 25. mars: 20 prósenta skerðingin annars vegar og uppsagnir starfsmanna hins vegar.

Spurðu Valgerði um lausn á fjárhagsmálum

Framkvæmdastjórn spurði Valgerði á fundinum hvort hún ætlaði sér að leggja fram rekstraráætlun eða aðrar tillögur um sparnað sem gætu komið í veg fyrir uppsagnir starfsfólks. Spara þyrfti að minnsta kosti 110-150 mkr. í rekstri.

Valgerður sagðist ekki hafa rekstraráætlun eða aðrar tillögur um sparnað en benti á að ekki væri fullreynt að fá aukið fé frá hinu opinbera. Vinna þyrfti nýjar lausnir í sparnaði með starfsfólki meðferðarsvið, til dæmis með því að breyta Vík í fimm daga meðferð.

Fannst ekki gengið nógu langt

Í fundargerð frá fundi framkvæmdastjórnar SÁÁ þann 25. mars kemur fram að allir nema einn í framkvæmdastjórn hafi greitt atkvæði með tillögunni um að 20 prósent lækkun á starfshlutfalli starfsamanna SÁÁ og um uppsagnir starfsamanna á grundvelli sparnaðar.

Fyrirsjáanlegt tekjutap á árinu 2020 var 110 mkr en með uppsögnum og lækkuðu starfshlutfalli myndu sparast um 46 mkr. Sá sem greiddi ekki atkvæði fannst tillagan ekki ganga nógu langt.