Sam­komu­lag hefur verið gert milli Sjúkra­trygginga Ís­lands og Orku­hússins um að læknar og hjúkrunar­fræðingar komi til starfa á Land­spítalanum til að styðja við þjónustu spítalans sem er undir gríðar­legu á­lagi af völdum Co­vid-far­aldursins og starfar nú á neyðar­stigi.

Frá þessu er greint í frétta­til­kynningu frá SÍ. Þar segir að verk­efnið hefjist á mánu­daginn og er lið­styrkurinn til við­bótar við þann sem samið var um við Klíníkina í Ár­múla í Reykja­vík og er starfs­fólk þaðan þegar komið til starfa á Land­spítalanum. Nú þegar er á annan tug starfs­fólks frá Klíníkinni komið til starfa á Land­spítala.

María Heimis­dóttir, for­stjóri Sjúkra­trygginga Ís­lands, segir að nú sé unnið að sams konar samningum við fleiri lækna­stöðvar á höfuð­borgar­svæðinu.

María Heimis­dóttir, for­stjóri Sjúkra­trygginga Ís­lands.

Ríkis­stjórnin til­kynnti í gær að loknum fundi sínum hertar sótt­varna­að­gerðir sem tóku gildi á mið­nætti og að ráðist yrði í að­gerðir til að bæta erfiða stöðu Land­spítalans og er sam­komu­lag SÍ við Orku­húsið þáttur í því. Á fundinum var einnig á­kveðið að greiða fyrir við­bótar­vinnu­fram­lag starfs­fólk næstu mánuði svo tryggja megi mönnun. Fé­lagar í Lands­björg munu að­stoða við yfir­setu sjúk­linga að því er segir á vef Stjórnar­ráðsins.

Fyrr í vikunni sagði Guð­laug Rakel Guð­jóns­dóttir, starfandi for­stjóri Land­spítala, að um tvö­hundruð hjúkrunar­fræðinga og sjúkra­liða vantaði til að ráða við hið mikla álag sem á spítalanum er í þessari bylgju far­aldursins. Hlut­fall lang­tíma­veikinda meðal starfs­fólks hefur aldrei verið jafn hátt og nú. Á Sjúkra­húsinu á Akur­eyri er róðurinn sömu­leiðis þungur og allar legu­deildir fullar.

Sam­kvæmt frétt á vef spítalans í gær voru 140 starfs­menn í ein­angrun og 115 í sótt­kví, þar af 50 í vinnu­sótt­kví. Á spítalanum eru nú 45 inni­liggjandi með Co­vid-19, þar af 32 í ein­angrun með virkt smit. Sex sjúk­lingar eru á gjör­gæslu, þrír í öndunar­vél. Í gær bættust sjö sjúk­lingar á Co­vid-deildina og þrír voru út­skrifaðir.

Á Landa­koti eru sex með Co­vid-19 og næstu daga verða þar á­fram um­fangs­miklar skimanir. Á­fram verður skimað á hjarta­deildinni þar sem nokkur fjöldi smita hefur greinst að undan­förnu, bæði við inn­lögn og hjá inni­liggjandi.

„Starf­semi hjarta­deildar er engu að síður í fullum gangi og sýnir starfs­fólkið mikinn dugnað og hug­vit við að leysa þetta flókna verk­efni. Fleiri deildir eru að glíma við CO­VID verk­efni og leysa þau jafn­harðan með miklum sóma“, segir á vef spítalans.

Í fjar­þjónustu Co­vid-göngu­deildar er nú 7.951, þar af eru 2.679 börn. Í gær komu 18 til mats og með­ferðar á deildinni.

Í gær greindust 1.143 Co­vid-smit innan­lands sam­kvæmt bráða­birgða­tölum frá al­manna­vörnum.