Samkomulag hefur verið gert milli Sjúkratrygginga Íslands og Orkuhússins um að læknar og hjúkrunarfræðingar komi til starfa á Landspítalanum til að styðja við þjónustu spítalans sem er undir gríðarlegu álagi af völdum Covid-faraldursins og starfar nú á neyðarstigi.
Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá SÍ. Þar segir að verkefnið hefjist á mánudaginn og er liðstyrkurinn til viðbótar við þann sem samið var um við Klíníkina í Ármúla í Reykjavík og er starfsfólk þaðan þegar komið til starfa á Landspítalanum. Nú þegar er á annan tug starfsfólks frá Klíníkinni komið til starfa á Landspítala.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að nú sé unnið að sams konar samningum við fleiri læknastöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Ríkisstjórnin tilkynnti í gær að loknum fundi sínum hertar sóttvarnaaðgerðir sem tóku gildi á miðnætti og að ráðist yrði í aðgerðir til að bæta erfiða stöðu Landspítalans og er samkomulag SÍ við Orkuhúsið þáttur í því. Á fundinum var einnig ákveðið að greiða fyrir viðbótarvinnuframlag starfsfólk næstu mánuði svo tryggja megi mönnun. Félagar í Landsbjörg munu aðstoða við yfirsetu sjúklinga að því er segir á vef Stjórnarráðsins.
Fyrr í vikunni sagði Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala, að um tvöhundruð hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða vantaði til að ráða við hið mikla álag sem á spítalanum er í þessari bylgju faraldursins. Hlutfall langtímaveikinda meðal starfsfólks hefur aldrei verið jafn hátt og nú. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er róðurinn sömuleiðis þungur og allar legudeildir fullar.
Samkvæmt frétt á vef spítalans í gær voru 140 starfsmenn í einangrun og 115 í sóttkví, þar af 50 í vinnusóttkví. Á spítalanum eru nú 45 inniliggjandi með Covid-19, þar af 32 í einangrun með virkt smit. Sex sjúklingar eru á gjörgæslu, þrír í öndunarvél. Í gær bættust sjö sjúklingar á Covid-deildina og þrír voru útskrifaðir.
Á Landakoti eru sex með Covid-19 og næstu daga verða þar áfram umfangsmiklar skimanir. Áfram verður skimað á hjartadeildinni þar sem nokkur fjöldi smita hefur greinst að undanförnu, bæði við innlögn og hjá inniliggjandi.
„Starfsemi hjartadeildar er engu að síður í fullum gangi og sýnir starfsfólkið mikinn dugnað og hugvit við að leysa þetta flókna verkefni. Fleiri deildir eru að glíma við COVID verkefni og leysa þau jafnharðan með miklum sóma“, segir á vef spítalans.
Í fjarþjónustu Covid-göngudeildar er nú 7.951, þar af eru 2.679 börn. Í gær komu 18 til mats og meðferðar á deildinni.
Í gær greindust 1.143 Covid-smit innanlands samkvæmt bráðabirgðatölum frá almannavörnum.