Frumvarp þess efnis að starfsfólk og verktakar íþróttafélaga eigi rétt á atvinnuleysisbótum að hluta samhliða minnkuðu starfshlutfalli var samþykkt á föstudaginn.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra lagði frumvarpið fram í síðustu viku og var það samþykkt fyrir helgi.

Miðað við það geta starfsmenn íþróttafélaga, þjálfarar og aðrir á launaskrá viðkomandi félags sótt um hlutagreiðslur komi til skerts starfshlutfalls. Gert er ráð fyrir að þær geti numið frá 20-75% skerðingu á móti starfshlutfalli starfsmanna.

Komi til skerðingar þarf starfsmaður að semja við yfirmann sinn og sækja að því loknu um greiðslur vegna minna starfshlutfalls.

Miðað er við meðaltal launa síðustu þriggja mánaða áður en launamaður missti starf sitt að hluta og getur sameiginleg upphæð launanna og bótagreiðslanna aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns.

Þá er þak á samanlagða bætur og launa 700.000 krónur. Einstaklingur sem fær 400.000 eða minna á mánuði getur fengið 100% launa sinna greitt.

Gildistími launanna er frá 15. mars til 31. maí 2020.