Bæði starfs­fólk og nem­endur Foss­vogs­skóla, sem ferðast hafa til á­kveðinna héraða Ítalíu, verður gert að við­halda tveggja vikna sótt­kví við komuna til Ís­lands en þetta kemur fram í pósti sem skóla­stjórn­endur sendu for­ráða­mönnum barna við skólann í dag. Á­kvörðunin var tekin í kjöl­far til­kynningar frá Skóla- og frí­stunda­sviði til stjórn­enda grunn­skóla borgarinnar um kóróna­veiruna.

Í til­kynningu Skóla- og frí­stunda­sviðs kemur fram að mikil­vægt sé að þeir starfs­menn sem dvalið hafa á smituðum svæðum síðast­liðnar þrjár vikur fylgist vel með heilsu sinni og bent er á til­mæli sótt­varnar­læknis um að fólk haldi sig heima í fjór­tán daga eftir komuna til landsins.

„Í Foss­vogs­skóla viljum við túlka þessar upp­lýsingar á þann hátt að þær nái einnig til nem­enda okkar sem ferðast til þessara sömu svæða. Við munum kapp­kosta að halda starfs­fólki okkar sem kemst í ná­vígi við þessi svæði heima við í tvær vikur á sama hátt og við göngum út frá sömu við­miðum með nem­endur okkar,“ segir í pósti skóla­stjórn­enda til for­ráða­manna.

Mælt með tveggja vikna sóttkví

Líkt og sótt­varna­læknir greindi frá í gær er mælt gegn á­stæðu­lausum ferða­lögum til Lom­bardíu, Venetó, Emilía Rómanja og Píemonte á Ítalíu en smit af völdum kóróna­veirunnar CO­VID-19 hafa komið upp í þeim héruðum síðustu daga. „Við í skóla­sam­fé­laginu þurfum því öll að gæta fyllsta öryggis og passa hvert upp á annað í þessum málum,“ segir að lokum í póstinum.

Fyrr í dag var greint frá því að kennari við Egils­staðar­skóla hafi verið settur í heima­sótt­kví eftir að hafa ferðast til skíða­svæðis í einum af héruðunum. Ekki var þó talið að hann hafi komið ná­lægt neinum sem smitaðir eru en að hann hafi verið settur í sótt­kví af var­úðar­skyni.

Þá voru einnig sjö Ís­lendingar á hóteli á Kanarí settir í sótt­kví eftir að gestur á hótelinu greindist með veiruna og eru tvö smit nú stað­fest þar. Einnig var ís­lensk fjöl­skylda sett í sótt­kví eftir komuna til landsins frá Wu­han. Þau reyndust þó ekki vera smituð af veirunni.