Opinber áskorun til Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra og Heiðu Bjargar Pálmadóttur, forstjóra Barnaverndarstofu frá starfsmönnum meðferðarheimilisins Laugarland hefur verið í umferð á samfélagsmiðlum í dag. Í áskoruninni er skorað á ráðherra að reyna finna leið til að halda starfsemi meðferðarheimilisins gangandi.
„Þann 20. janúar tilkynnti forstöðumaður Meðferðarheimilisins að Laugalandi okkur starfsmönnum að hann myndi hætta rekstri meðferðaheimilisins eftir rúmlega 5 mánuði. Einnig tilkynnti hann okkur að Barnaverndarstofa hefði tekið ákvörðun um að starfsemi heimilisins yrði hætt þann 30. júní næstkomandi. Við viljum skora á þá aðila sem að málinu koma að endurskoða þessa ákvörðun, sem við teljum geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir skjólstæðingana okkar,“ segir í áskoruninni.
„Sömuleiðis er á Laugalandi mikill mannauður og áratuga reynsla og fagþekking er varðar meðferð unglinga með hegðunar- og vímuefnavanda. Ljóst er að sú mikla reynsla og fagþekking muni glatast við lokun heimilisins. Við teljum einnig varhugavert á þessum óvissutímum sem Covid-19 hefur skapað að loka meðferðarheimilinu. Áhrif Covid-19 á okkar skjólstæðingahóp hafa í rauninni enn ekki komið fram að fullu og óljóst hvenær við munum sjá hverjar afleiðingarnar verða,“ segir þar enn fremur.
Að mati starfsmananna er verið með þessu að fækka enn úrræðum fyrir nú þegar viðkvæman hóp.
„Við teljum að þessi ákvörðun sé óábyrg. Miðað við framangreint, teljum við engan veginn ásættanlegt að leggja niður enn eitt úrræðið fyrir einn af viðkvæmustu hópum þjóðfélagsins, og fórna í leiðinni áratuga reynslu og fagþekkingu starfsfólksins á Laugalandi.“