Fjöldi starfandi í ferða­þjónustu hefur ekki mælst minni frá árinu 2013. Gert er ráð fyrir að fjöldi starfandi hafi farið úr um 23.000 árið 2019 niður í 12.600 árið 2020, nærri helmings fækkun á milli ára.

Þetta kemur fram á vef Hag­stofu Ís­lands.

Á árinu 2020 fækkaði komum er­lendra ferða­manna til Ís­lands um 81 prósent saman­borið við árið 2019. Það má rekja beint til á­hrifa kórónu­veirufar­aldursins sem hafði mikið á­hrif á ferða­þjónustu hér á landi sem og annars staðar í í heiminum.

Hlut­deild ferða­þjónustu á ís­lenskum vinnu­markaði minnkaði einnig árið 2020 saman­borið við árin á undan.

Á­ætlað er að af heildar­fjölda vinnu­stunda á árinu 2020 hafi 5,5 prósent vinnu­stunda tengst beint fram­leiðslu á vöru eða þjónustu til endan­legra nota fyrir ferða­menn. Til saman­burðar var hlut­fallið 10,4 prósent að meðal­tali á árunum 2018 og 2019.

Útlit er fyrir áframhaldandi áhrif kórónuveirufaraldursins hér á landi í vetur. Líklegt þykir að erlendir ferðamenn verði talsvert færri í ár en spáð var fyrir um.

Í upp­hafi sumars hafi spár gert ráð fyrir 600 til 900 þúsund ferða­mönnum í ár sam­kvæmt greiningum bankanna og Ferða­mála­stofu en ljóst sé að þeir verði nær 600 þúsund.

Þetta kom fram í samtali Jóhannesar Þórs Skúlasonar framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar við Morgunblaðið í síðustu viku.

Hann segir viðbúið að veturinn verði erfiður og mikilvægt sé að stjórnvöld bregðist við með viðeigandi aðgerðum.