Eva Marín Hlyns­dóttir, prófessor í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Ís­lands, segir að lengi vel hafi verið til­hneiging til að greiða vel fyrir starf sveitar­stjóra.

Um­ræðan um ofur­launin og gagn­rýni vegna þeirra fari af stað í upp­hafi hvers kjör­tíma­bils, á fjögurra ára fresti, og þrátt fyrir hana hafi þau í raun lítið breyst.

Lítið starfsöryggi

Að sögn Evu Marínar hafa ýmsar skýringar verið gefnar á háum launum. Sem dæmi sé á­kveðin á­hætta fólgin í starfinu, sér­stak­lega utan höfuð­borgar­svæðisins.

Sveitar­stjórar þurfi oft að flytja fyrir starfið og að starfs­öryggið sé á­kaf­lega lítið.

„Það er mikið rót á fólki, mörg sveitar­fé­lög skipta um sveitar­stjóra á miðju kjör­tíma­bili og svo á fjögurra ára fresti,“ segir Eva Marín og bætir við að hún telji það einn hvata hárra launa.

Ólíkir samningar

Eva Marín segir tilhneiginguna til að greiða há laun fyrir starf sveitarstjóra ekki einskorðast við Ísland heldur þekkist einnig víða annars staðar.

Hér á landi séu sveitarstjórar ekki bundnir kjarasamningum eða ákveðnum launatöflum. Sveitarstjórar geri samninga við sína sveitarstjórn og þeir séu eins mismunandi og þeir eru margir.

Bilið á milli hæstu og lægstu launa sveitarstjóra sé rosalega mikið og að lág laun séu ekki endilega bundin við minnstu sveitarfélögin.

Æðstu yfirmenn

Aðspurð hvort mikill munur sé á starfi sveitarfélaga í litlu sveitarfélagi annars vegar og stóru hins vegar segir Eva Marín hlutverk þeirra í grunninn það sama. „Þetta eru æðstu yfirmenn í stjórnsýslu sveitarfélagsins og þeir vinna fyrir hönd sveitarstjórnarinnar.“

Að sögn Evu Marínar eru störf sveitarstjóra í allra stærstu sveitarfélögunum orðin líkari störfum forstjóra stórra fyrirtækja, með marga starfsmenn og mikla ábyrgð. Sveitarstjórar smærri sveitarfélaga hafi færri starfsmenn og þurfi oft að sinna fleiri verkefnum.

Sólarhringsvaktir

„Starfið getur verið mjög fjölbreytt og það verður oft mikið álag þó að þetta sé ekki stórt sveitarfélag því það er enginn annar til að ganga í verkin,“ segir Eva Marín og bætir við að að þetta geti verið sólarhringsvaktir.

Eva Marín segir starf sveitarstjóra hafa gjörbreyst á síðastliðnum tuttugu árum. „Það hefur einfaldlega bólgnað út, verkefni sveitarfélaganna hafa aukist og starfsfólkinu hefur fjölgað. Þetta er orðið miklu flóknara og mun meiri rekstur.“

Sérfræðingar óskast

Eva Marín segir breytta starfsemi sveitarfélaga sjást vel á ráðningum í stöður sveitarstjóra. „Það er miklu meira um að það sé verið að ráða sérfræðinga í rekstri. Mikill meirihluti sveitarstjóra eru með einhvers konar menntun í viðskiptafræði, hagfræði eða einhverri stjórnun.“

Eva Marín bætir fjölbreytta flóru af fólki sé að finna í störfunum en það sé þó meiri tilhneiging en áður að ráða fólk með rekstrarþekkingu og að það sjáist skýrt á starfsauglýsingum.

„Það er nánast í hverri einustu auglýsingu gerð krafa um að þú kunnir eitthvað í rekstri, hafir einhverja reynslu af rekstri,“ segir Eva Marín og bætir við að oftast sé einnig gerð krafa um reynslu í rekstri hjá hinu opinbera eða þekking á sviði sveitarstjórnarmála.

Mun fleiri ráðnir inn

Að sögn Evu Marínar er það algengur misskilningur að sveitarstjórar séu oftast pólitískir.

Í kringum tuttugu prósent séu pólitískt kjörnir og að það sé talsvert algengara í stærri sveitarfélögum með stóra og sterka stjórnsýslu en í þeim smærri.

Eftir hrunið, árið 2008, hafi orðið óvinsælt að ráða pólitískt eða handvelja vini í verkefnið líkt og hafði tíðkast og krafa hafi verið gerð um fagfólk í stéttinni.

„Það er enn miklu lægra hlutfall kjörinna fulltrúa sem taka að sér þetta verkefni en ég er samt að sjá núna það sem ég hef ekki séð síðan fyrir hrun. Það eru komnir sveitarstjórar sem eru kjörnir fulltrúar í minni sveitarfélögum, ekki bara þessum risastóru," segir Eva Marín að lokum.