Landssamband slökkviliðs og sjúkraflutningamanna, LSS, telur brýnt að bregðast við vegna breytinga á hættuflokkun starfs slökkviliðsmanna úr flokki 2B, sem er fyrir störf sem eru hugsanlega krabbameinsvaldandi, yfir í flokk 1, sem er fyrir þau störf sem eru staðfest krabbameinsvaldandi, hjá undirstofnun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, Alþjóðlegu rannsóknarstofnuninni í krabbameinsfræðum (IARC).
Í yfirlýsingu segir LSS að það sé brýnt að bregðast strax við þessum breytingum og ráðast í greiningu og gerð aðgerðaráætlunar sem hefur það markmið að lágmarka líkur á því að slökkviliðsmenn verði útsettir fyrir krabbameinsvaldandi efnum og réttindi þeirra tryggð.
Þó við höfum ekki tölfræðina eða staðfest tilfelli er það þekkt innan stéttarinnar að ansi margir félagar okkar hafa greinst með eða látist úr krabbameinum
Þá segir að þessi nýja flokkun ætti að leiða til þess að þau krabbamein, sem hafi verið staðfest að slökkviliðsmenn vegna starfs síns eigai í aukinni hættu að greinast með, verði skilgreind sem atvinnusjúkdómur með þeim réttindum sem slíkt felur í sér.
„Engin rannsókn hefur verið gerð á tíðni krabbameins meðal slökkviliðsmanna á Íslandi og engin skráning til hjá Vinnueftirlitinu en þó við höfum ekki tölfræðina eða staðfest tilfelli er það þekkt innan stéttarinnar að ansi margir félagar okkar hafa greinst með eða látist úr krabbameinum,“ segir í yfirlýsingunni og að stór hluti félagsmanna LSS séu slökkviliðsmenn og að flestir starfi hjá sveitarfélögum en einnig telji félagsmenn starfsmenn ISAVIA sem sinna slökkvi- og björgunarþjónustu á flugvöllum.
LSS er fagstéttarfélag starfsgreina í neyðar og viðbragðsþjónustu. Á vegum félagsins hefur starfað sérstök Krabbameinsnefnd sem um árabil hefur verið leiðandi í kynningu og fræðslu um hættu slökkviliðsmanna á starfstengdum sjúkdómum og átt í alþjóðlegu samstarfi við sérfræðinga og eru þessi nýju tíðindi viðurkenning á því grasrótarstarfi sem slökkviliðsmenn hófu fyrir margt löngu þegar eftir því var tekið hversu margir slökkviliðsmenn greinast og látast úr krabbameinum.