Pat­rekur Jaime, Bassi Mara­j, Binni Glee, Gunnar Skírnir og Sæ­mundur eru á aldrinum 21-24 ára og eru skærustu raun­veru­leika­sjón­varps­stjörnur landsins. Strákarnir hafa slegið í gegn í sjón­varps­þáttunum Æði og hafa þættirnir breytt lífi þeirra.

Patti: „Við höfum prófað að gera hluti sem við hefðum aldrei gert ef við værum ekki í Æði og við fáum að gera endalaust af skemmtilegum hlutum. Það er alltaf verið að bjóða okkur í hitt og þetta og það er sjúklega gaman.“

Bassi: „Það er nefnilega ógeðslega gaman að vera með okkur og það er alltaf gaman hjá okkur, ekki bara þegar við erum on camera. Og það er sérstaklega skemmtilegt þegar við erum að djamma, þá erum við hver öðrum ruglaðri. Ég á það til að hverfa, Patti fer í sleik við einhverjar gellur og Gunnar slúðrar stanslaust.“

Patti: „Annars er ég bara að lifa drauminn. Alveg frá því ég var lítill hef ég horft á raunveruleikaþætti og nú er ég bara raunveruleikastjarna.“

Gunnar: „Lífið breyttist mjög mikið eftir að Æði-þættirnir fóru af stað og eftir að ég varð raunveruleikastjarna. Ég get varla farið út í búð lengur án þess að einhver þekki mig eða að starað sé á mig. Ég myndi samt líka stara á mig.“

Mikið áreiti

Bassi: „Áreitið getur stundum orðið rosalega mikið og já, það horfa allir á mann í búðinni. Ég er til dæmis bara alveg hættur að fara í Hagkaup í Skeifunni, það er bara of mikið, ég fer bara í litlar búðir í staðinn.“

Patti: „Já, ég líka. Þegar allir eru að fylgjast með manni verður maður líka svo meðvitaður um sig, ég myndi aldrei fara í Hagkaup til dæmis án þess að vera málaður og vel til hafður.“

Sæmundur: „Við Gunnar höfum alltaf verið mjög lokaðar persónur og ekki hleypt mörgum inn í líf okkar svo ég hefði aldrei getað ímyndað mér að við værum á þessum stað í dag. Mér finnst enn þá frekar skrítið að við séum í sjónvarpinu og að fólk þekki okkur úr þættinum.“

Gunnar: „Ég er samt mjög sáttur með það sem við erum að gera í dag og að fólk fái að sjá okkur eins og við erum, ég held að það séu ekki margir hommatvíburar á Íslandi sem eru svona fabjúlus.“

Binni: „Það hefur mjög mikið breyst hjá okkur eftir að Æði byrjaði, aðallega það að fleira fólk er farið að þekkja mig og maður fær sjúklega mikla athygli en þetta er öðruvísi upplifun en þegar ég var snappari. Þá var ég mestmegnis með börn sem fylgjendur en í dag eru það allir. Mér finnst samt líka mjög mikilvægt að fólk eins og ég fái pláss í samfélaginu og platform til að sýna að það er allt í lagi að vera öðruvísi og hinsegin. Mér líður eins og ég sé búinn að gera góða hluti fyrir samfélagið sem opinber hinsegin manneskja.“