Stúdenta­ráð Há­skóla Ís­lands, Há­skóli Ís­lands og Fé­lags­stofnun stúdenta undir­rituðu í gær, 16. maí, vilja­yfir­lýsingu vegna byggingarinnar Stapa við Hring­braut 31.

Í til­kynningu frá Stúdenta­ráði kemur fram að sam­kvæmt henni verður Stapa breytt í stúdenta­garða þegar hann verður seldur Fé­lags­stofnun Stúdenta og mun þá falla að Gamla Garði og nýrri við­byggingu hans.

Undan­farinn ára­tug hefur náms­braut í sjúkra­þjálfun haft að­stöðu í Stapa en það stendur til að starf­semin verði flutt í nýtt hús­næði Heil­brigðis­vísinda­sviðs á Land­spítala­svæðinu.

Stapi, sem upp­haf­lega bar nafnið Stúdenta­heimilið, var byggður af Fé­lags­stofnun stúdenta árið 1971 og seldur Há­skóla Ís­lands við byggingu Há­skóla­torgs árið 2007. Stapi hýsti lengi vel Ferða­skrif­stofu stúdenta, Bók­sölu stúdenta og síðar Stúdenta­kjallarann á vegum Fé­lags­stofnunar.

Stúdenta­ráð telur þetta vera heilla­skref fyrir há­skóla­sam­fé­lagið og mikil­vægan á­fanga í fjölgun stúdenta­í­búða nærri og á svæði Há­skóla Ís­lands.

Á myndinni má sjá Gamla Garð.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari