Hlöðu­fell er einn til­komu­mesti mó­bergs­stapi á Ís­landi en stapar eru eld­fjöll sem myndast undir jökli eða ís­hellu. Stærstur þeirra er Ei­ríks­jökull en frægastur án efa sjálf Drottningin Herðu­breið, en Hlöðu­felli svipar mjög til hennar, ekki síst úr suðri. Hlöðu­fell er 1.188 metra hátt og liggur milli Laugar­vatns og Lang­jökuls. Það er um­kringt glæsi­legum fjöllum eins og Skjald­breið, Högn­höfða, og Jarl­hettum en af toppnum sést Þóris­jökull og sunnan­verður Lang­jökull einnig vel.

Ó­hætt er að mæla með göngu á Hlöðu­fell en á jeppa er auð­velt að komast að rótum fjallsins. Er þá oftast ekinn fjall­vegur upp frá Laugar­vatni eða fylgt línu­vegi norðan Skjald­breiðs sem liggur út frá veginum norður að Kalda­dal og Húsa­felli. Líkt og á Herðu­breið er að­eins ein örugg göngu­leið upp Hlöðu­fell og hefst hún sunnan við fjallið við Hlöðu­velli.

Hlöðufell er stapi en úr suðri líkist það óneitanlega sjálfri Herðubreið.
Mynd/Ólafur Már Björnsson

Þarna er ný­legur skáli Ferða­fé­lags Ís­lands og fal­legt tjald­stæði. Fylgt er göngu­stíg skammt norðan við skálann en hærra á sökkli fjallsins eykst brattinn og í kletta­beltinu getur verið laust undir fæti. Þarna er mikil­vægt að fara var­lega svo allir komist klakk­laust í gegnum klettana. Ofan þeirra tekur við af­líðandi stallur uns komið er að snævi þakinni dal­hvilft sem gengið er eftir, oftast á snjó.

Við enda hennar tekur við af­líðandi stór­grýtt brekka upp að tindinum. Þar bíður reisu­leg varða en skammt frá er tví­höfða stöðu­mælir sem ein­hverjir húmor­istar grófu kirfi­lega niður fyrir all­mörgum árum. Þarna er frá­bært út­sýni til allra átta en stöðu­mælirinn fær á­vallt tölu­verða at­hygli líka. Fylgt er sömu leið niður af fjallinu en ef skyggni versnar er skyn­sam­legt að fylgja GPS-hnitum í gegnum kletta­beltið, enda slóðinn oft ó­greini­legur.

Ganga upp klettabeltið er nokkuð brött en útsýnið er frábært, m.a. að Skjaldbreið.
Mynd/Ólafur Már Björnsson

Göngu á Hlöðu­fell er auð­velt að skipu­leggja sem dags­ferð úr Reykja­vík en fyrir þá sem vilja staldra lengur við á Hlöðu­völlum er ó­hætt er að mæla með göngu á Högn­höfða. Einnig er til­valið að kíkja á hellinn Jörund austan við Hlöðu­fell en hann var friðaður 1985. Loks er frá­bær göngu­leið frá Rótar­sandi þar sem Brúar­á á upp­tök sín, en þar treður þessi vatns­mikla á sér í gegnum stór­feng­leg gljúfur, Brúar­ár­skörð, að sumar­bú­staða­byggðinni í Brekku­skógi sem flestir þekkja. Í Brúar¬árskörðum er fjöldi til­komu­mikilla fossa og sjást sumir þeirra spýtast beint út úr berg­stálinu.