Sæborg Ninja Urðardóttir lýsir kvöldinu á Hverfisbarnum og segir þetta hafa verið fyrsta skiptið sem hún fór út á meðal almennings, fyrir utan göngutúra, eftir röð áfalla í Edinborg.

„Þar var ráðist á mig eða aðra sem voru nálægt mér á meðan ég var á hinsegin ráðstefnu. Mánuðir liðu þar sem ég átti erfitt með að fara út að kveikja mér í sígarettu. Þannig að það var gífurlegt áfall að upplifa þetta sama hatur og fyrirlitningu aftur,“ segir Sæborg í samtali við Fréttablaðið.

Málið má rekja til afmælisveislu hjá systkini Sæborgar á Hverfisbarnum þegar dyravörður neitaði að hleypa Sæborgu inn og vísaði til hennar sem „karls í kellingapels“. Segir hún dyravörðinn hafa smánað sig fyrir framan annað fólk, rangkynjað sig og sagt sér að fara í jakkaföt. Hann hafi svo gripið drykk af konu sem var með henni og hópi hennar og tæmt úr glasi hennar.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og ákvað stúdentahreyfinginRöskva að hætta við að halda Ragnarök, stóran árlega viðburð hreyfingarinnar, á Hverfisbarnum vegna ásakana um að staðurinn væri að mismuna trans fólki.

Sæborg Ninja.
Mynd: Aðsend

„Þetta mál er stanslaus áminning um áföll og mismunun, og er það eflaust líka fyrir öðru fólki sem glímir við þessi kerfi.“

Hringdu ekki í vitnin

Sæborg segist hafa veitt lögreglu lista yfir vitni sem gætu hjálpað þeim en síðar frétti hún að lögreglan hafi ekki haft samband við neinn á listanum.

„Við fyrstu rannsókn, ef svo mætti kalla, voru teknir niður vitnisburður minn og vitnisburður dyravarðarins. Ég lét vita af vitnum sem gætu stutt við mál mitt, fyrir utan þau sem vildu ekki tala við lögregluna vegna slæmrar reynslu, en lögreglan talaði ekki við neitt þeirra. Í kjölfarið var málið láta falla niður um sumarið,“ segir Sæborg og bætir við að atvikið hafi rifið upp gömul sár.

„Þetta mál er stanslaus áminning um áföll og mismunun, og er það eflaust líka fyrir öðru fólki sem glímir við þessi kerfi. Hluti af okkar öryggiskennd í samfélaginu kemur af þeirri vitneskju, að ef einhver brýtur á okkur að þá sé til kerfi sem á að verja og leita réttar þíns. Þannig að vitneskjan, um að það hafi ekki einu sinni verið rætt við vitni, er ærandi.“

Eftir áfrýjun var málið tekið upp aftur sumarið og haustið 2019 og var rannsókninni lokið um áramótin. Í upphafi kórónaveirufaraldursins var málið svo opnað aftur.

„Mér er sagt að það sé erfitt að tala við vitni út af ástandinu. Ég gat ekki lengur náð í lögregluna í gegnum tölvupóst um þetta leyti. Í hvert skipti sem ég sendi tölvupóst á viðeigandi lögregluþjón, þá virðist málið skipta um hendur og enginn telja það þess virði að láta mig vita af því fyrr en ég hringi niður á lögreglustöð og spyrji hver sé nú með málið. Á endanum er málið samt látið niður falla; það þykir víst ekki fyllilega trúverðugt að þegar rætt er við vitni, ári eftir atburðinn, að þeim beri ekki saman um hvernig „karlmaður í pels, sem á ekki heima hér inni“ sé nákvæmlega orðað. Nara Walker hefur akkúrat talað um hvernig þessar túlkanir komu henni í fangelsi, þrátt fyrir að maðurinn sem var að brjóta á henni hefði játað í einkaskilaboðum sem voru meðal sönnunargagna.“

Elínborg Harpa var handtekin í Gleðigöngunni.

Aðgerðarleysi í málum hinsegin fólks

Á hinsegin dögum árið 2019 var mikið rætt um aðgerðarleysi lögreglu í málum þar sem ungt hinsegin fólk er beitt ofbeldi. Þá vakti athygli þegar aðgerðarsinninn Elínborg Harpa Önundardóttir var handtekin þegar hún var á leiðinni í Gleðigönguna árið 2019. Sæborg segir það mikið áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi fregna um lögreglukonu sem bar merki sem tengt hefur verið við nýnasistahreyfingu.

Lektor í lögreglufræðum sagði í samtali við Fréttablaðið í fyrra að mikilvægt væri að lögreglan komi fordæmingu sinni skýrt á framfæri við minnihlutahópa.

„Ég held oft að Íslendingar átti sig ekki á alvarleikanum á svona haturstjáningu, ef það má flokka þetta sem slíkt. Þeir gera sér oft ekki grein fyrir afleiðingunum því við höfum kannski ekki haft háværrar raddir í samfélaginu af jarðarsettum minnihlutahópum sem hafa akkúrat bent á hvaða afleiðingar svona tjáning hefur á þá,“ sagði Eyrún Eyþórsdóttir í samtali við Fréttablaðið.

Sem trans kona hefur það mál ekki aukið traust Sæborgar til lögreglu. „Ég veit ekki hvort að hægt sé að búast við öðru þegar það er ekki tekið alvarlega þegar lögregluþjónar eru að bítta nýnasistamerkjum til að skreyta búningana sína með,“ segir Sæborg.

„Ég þurfti að gráta og leggja mig í sjö tíma því ég bara of hrærð.“

Dyravörður Hverfisbarsins neitaði að hleypa Sæborgu inn á barinn þrátt fyrir að fjölskyldumeðlimur hennar væri að halda upp á afmælið sitt þar.

Átti ekki einu sinni efni á sálfræðingi

Sæborg safnar nú fyrir kostnaðinum við að ráða sér lögmann og hafa viðbrögðin við fjáröfluninni farið langt fram úr hennar villtustu órum.

„Á tæpum fjórum tímum flaug þetta fram úr markmiðinu og var síðast þegar ég gáði höfðu rúmar 200.000 krónur safnast. Ég þurfti að gráta og leggja mig í sjö tíma því ég bara of hrærð,“ segir Sæborg.

Ferlið hefur grafið svakalega undan öryggistilfinningu hennar og skiptir því samstaðan hana miklu máli.

„Fjárhagurinn minn var aldrei að fara að bjóða upp á að ráða lögfræðing, þegar ég á ekki einu sinni efni á sálfræðingi, svo að ég sá ekki fram á neina aðra möguleika en að treysta á kerfið. Það er sama sagan fyrir mikið af fólki; lögfræðikostnaður er á herðum hvers og eins, jafnvel fólk sem er ágætlega statt þarf því að vega og meta hvort það vilji taka þennann fjárhagsskell ef það vill leita réttar síns eða er í stöðu verjanda.“