Innlent

Stal korti for­eldra sinna og eyddi 800 þúsund í tölvu­leik

Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur segir að 80 prósent skjólstæðinga sem leiti til hans vegna net- eða tölvuleikjafíknar spili Fortnite. Einn unglingur eyddi mánaðarlaunum móður sinnar á einu bretti.

Í Counter-Strike er hægt að kaupa vopnapakka dýrum dómum.

Sálfræðingur sem sérhæfir sig í meðhöndlun á einstaklingum sem haldnir eru tölvu- eða skjáfíkn segir að um 80 prósent nýrra skjólstæðinga, sem komið hafi til hans undanfarið hálft ár, eigi í erfiðleikum vegna spilunar á tölvuleiknum Fortnite. Hann segist þekkja fjölmörg dæmi þess að foreldrar hafi tapað háum fjárhæðum vegna spilunar barna sinna. Í einu tilvikinu eyddi drengur um 800 þúsund krónum, án samþykkis og vitundar foreldra, í Playstation.

Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur fæst við netfíkn. Hann fær til sín mikinn fjölda barna og ungs fólks sem glímir við vandamál vegna notkunar sem tengjast tölvuleikjum eða netinu. Hann segir að í dag sé Fortnite langvinsælasti leikurinn.

Sjá einnig: Fortnite-æðið skilur íslenska foreldra etir í súpunni

Eyjólfur segir að þegar tölvunotkun verði vandamál sé það oftast til komið vegna flótta frá einhverju sem lætur fólkinu, börnum eða fullorðnum, líða illa. Flótta frá því sem er erfitt og leiðinlegt. „Tölvuleikurinn lætur þeim líða betur,“ segir hann. Fjölspilunarleikir hafi sterk og öflug áhrif á líðan fólks. „Ef flóttinn er að virka og er öflugur þá viltu sækja í það í auknum mæli. Þú ferð að gera fátt annað en það sem gerir þér kleift að flýja frá því sem þú ert að flýja.“

Í tölvuleikjum getur fólk öðlast hlutverk og virðingu sem það fær ekki alltaf í raunheimum, að sögn Eyjólfs. Í þeim geti fólk staðið sig vel og sigrað; eitthvað sem fólki tekst ekki endilega ef fólk glímir við þunglyndi eða líkamlega erfiðleika.

Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur segir að netfíkn sé vaxandi vandamál. Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Tölvuleikir ekki slæmir í sjálfu sér

Hann segir að tölvuleikir geri fólki almennt séð ekkert slæmt. Um sé að ræða afar flotta leiki sem geti veitt fólki góða afþreyingu – þar sem fólk geti auk þess átt í samskiptum. Í óefni stefni hins vegar þegar samskiptin í tölvuleikjunum komi í stað venjulegra samskipta. „Þetta er hörkuskemmtileg viðbót við vinskap. En þegar þetta er farið að koma í veg fyrir samskipti á milli vina eða fjölskyldu þá fer þetta að vera vont – þegar þetta fer að raska einhverju í lífinu.“

Yngstu skjólstæðingar Eyjólfs, sem koma vegna netfíknar, eru um átta ára gamlir. Hann fær líka til sín fólk á þrítugs- og fertugsaldri. Hann segir að í flestum tilfellum séu einstaklingarnir farnir að klippa á aðra hluti í lífinu, til að taka þátt í leiknum. „Þeir læra ekki og hitta ekki vini sína. Í öfgatilfellum hætta þeir það þrífa sig.“ Enginn mótspilari sé að velta slíkum hlutum fyrir sér og því láti fólk hjá líða að sinna sjálfu sér.

Fortnite ekki ljótur leikur

Hann segir að Fortnite sé ekki slæmur tölvuleikur í sjálfu sér, enda sé leikurinn ekki vandamálið. Ekkert blóð sé í leiknum þó um bardagaleik sé að ræða. Leikurinn sé ekki ljótur og bjóði upp á nýja hluti í tölvuleikjaspilum. Hann höfði til dæmis jafnt til stelpna og stráka, eitthvað sem ekki hefur sést áður. Aðspurður segir Eyjólfur að stúlkur séu almennt aðeins 20 prósent þeirra sem glíma við netfíkn. Hann segist ekki hafa greint breytingu á skjólstæðingahópi sínum þrátt fyrir vinsældir Fortnite á meðal stúlkna og kvenna. „Það er ekki mikil aukning enn þá. En við þurfum að bíða og sjá.“

Sjá einnig: Fortnite þénaði 31 milljarð í aprílmánuði

Fortnite höfðar til allra kynja.

Spurður hvernig foreldrar geti fyrirbyggt netfíkn eða tölvuleikjafíkn hjá börnum segir Eyjólfur að nauðsynlegt sé að finna jafnvægi í notkuninni. Hann segir að áður hafi verið sett viðmið á vesturlöndum um skjátíma barna – þ.e. þann tíma sem þau verja fyrir framan tölvuskjái – en að horfið hafi verið frá slíkum viðmiðum. Skjátími þar sem börn öðlist færni eða læri uppbyggilega og/eða skapandi hluti sé af hinu góða.

„Þetta snýst um heilbrigða skynsemi og hvernig maður notar tækin. Þau geta verið sniðug og gagnlegt en líka hættuleg og ljót,“ segir Eyjólfur sem brýnir fyrir foreldrum að fylgjast með því hvað börnin séu að aðhafast í tölvunum. Hann segir algengt að ungir menn ranki við sér undir tvítugu og átti sig á því að þeir hafi klúðrað skólanum og jafnvel vænrækt vinasambönd líka. Hann fái næstum daglega til sín slík tilfelli. 

Hann segir að í þeim tilfellum þegar ungt fólk hafi einangrað sig með þessum hætti geti það þróað með sér mikinn kvíða. Samskiptin á netinu og vinirnir sem ungmennin eignast þar í öðrum löndum og heimsálfum séu mjög blekkjandi. „Þeim líður eins og þau eigi vini út um allan heim. En svo þegar kemur að því að hafa raunveruleg samskipti við fólk þá roðna þau og titra. Þá kemur upp flóttalöngunin.“ Hann segir að samskipti í gegn um tölvur geti verið góð viðbót við venjuleg samskipti en nauðsynlegt sé að eiga þau líka.

Netfíknin enn að aukast

Tilfinning Eyjólfs er á þá leið að netfíknin sé vandamál sem stækki dag frá degi. Tæknin sé alltaf að batna og tæki koma fram á sjónarsviðið sem ýtt geti undir slíka kvilla. Áður hafi tölvur einungis verið borðtölvur með turnum, en nú séu tölvur í öllum vösum. „Það eru sífellt fleiri að lenda í einhverju veseni.“

Eins og áður segir aðstoðar Eyjólfur börn og foreldra þeirra við að brjótast út úr netfíkn eða óhóflegri tölvuleikjanotkun. Hann segir að fólk geti glímt við tölvuleikina upp að þrítugu en eftir það breytist nethegðunin oftast. Þá taki klámið og samfélagsmiðlarnir stundum völdin. Öfgafull samskipti á samskiptamiðlum á borðvið Chatroulette.

Hann segir líka algengt að fólk sé alltaf í símunum. „Fólk dettur í það að verða að „multitaska“ [gera margt í einu, innsk. blmm],“ segir Eyjólfur og nefnir dæmi að fólki nægi stundum ekki að tala við maka eða vini, eða horfa á sjónvarpið. Fólk sé sífellt að fletta einhverju upp í símanum samtímis (til dæmis leikara í þáttaröð eða kvikmynd), eða fylgjast með samfélagsmiðlum í gegn um símann. Þetta sé mikill streituvaldur.

„Við erum enn þá að læra,“ segir Eyjólfur um tæknibyltingu síðustu ára og áratuga. Um sé að ræða örustu samfélagsþróun sögunnar. „Öll þróunin í þessu gerist á methraða. Við erum fræðilega séð enn að læra hvernig þetta virkar.“

Fortnite-dansarnir hafa náð gífurlegum vinsældum, en í leiknum er hægt að kaupa dansa og hreyfingar, eins og búninga. Getty Images

Laumast í kreditkortin að næturlagi   

Eyjólfur hefur fengið til sín fjölmarga skjólstæðinga sem hafa orðið fyrir því að eyða háum upphæðum á netinu, oft í óþökk foreldra eða maka. „Maður á að passa hvar maður setur kreditkortaupplýsingarnar – og hvar maður vistar þær. Sérstaklega með yngri krakkana. Það er erfitt að verða fúll og sár við þau, því oftast er ekki ásetningur þeirra að stela.“

Hann segir þó að þegar krakkarnir verða að unglingum vandist málið. Þess séu dæmi að unglingar laumist í veski foreldra sinna að næturlægi og slái inn kortaupplýsingarnar þeirra, til að kaupa eitthvað í tölvuleikjum eða á netinu. „Ég hef verið með krakka þar sem þrjú hundruð þúsund krónur hafa farið. Það er mjög algengt,“ segir hann, beðinn um að nefna upphæðir í samhengi. Hann segir hins vegar að oftast sem sé betur fer aðeins um að ræða nokkra þúsund kalla eða tugi þúsunda.

Mánaðarlaun móður fóru á einu bretti

Mörg dæmi eru að sögn Eyjólfs um að foreldrar upplifi mikið sjokk þegar þeir komast að því að börnin hafa eytt miklum peningum í tölvuleik eða á netinu. „Ég var með einn sem hafði tekið mánaðarlaun mömmu sinnar á einu bretti. Hann var fimmtán ára og þetta var í byrjun mánaðarins, fjórða eða fimmta dag mánaðarins.“

Eyjólfur segir að þegar um sé að ræða efnameiri fjölskyldur geti upphæðirnar verið enn hærri, enda heimildin á kortunum há. Hann hafi fengið til sín ungling sem hafði eytt 800 þúsund krónum á stuttum tíma. Þar var um að ræða strák sem spilaði Counter-Strike. Hann hafði keypt pakka með vopnum eða öðrum munum, þar sem von um verðmætan vinning dreif hann áfram. „Þá ertu kominn í spilafíknina. Þú selur sjálfum þér hugmyndina um að þú fáir þetta til baka og getir selt. En þú ert aldrei að fara að vinna 800 þúsund kall til baka.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Fortni­te-æðið skilur ís­lenska for­eldra eftir í súpunni

Innlent

Fór illa út úr hruninu en vann 45 milljónir í vikunni

Innlent

Reyndi að borða flug­miðann sinn

Auglýsing

Nýjast

Á­rásar­maðurinn myrti fimm manns á vinnu­stað í Illin­ois í gær

Fínt vetrar­veður fram eftir degi en hvessir í kvöld

Leiðar­vísir að Kata­lóna­réttar­höldunum

Réðist á gesti og starfs­fólk

Nefnd HÍ skeri ekki úr um lögmæti rannsókna

Öllu tjaldað til við leit að loðnu austur fyrir landi

Auglýsing